150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem felur í sér að varsla ávana- og fíkniefna verði gerð refsilaus þegar magn efnanna er slíkt að það geti talist til eigin nota. Þetta frumvarp á sér langa forsögu sem ég mun fara betur yfir á eftir en fyrst langar mig að lýsa því hvernig þetta tiltekna mál kom til og af hverju núna. Síðasta þingvetur lagði hæstv. heilbrigðisráðherra fram frumvarp um neyslurými. Markmið frumvarpsins var að heimila stofnun og rekstur neyslurýma. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem fyllsta hreinlætis er gætt. Málið kom til umfjöllunar velferðarnefndar en eftir talsverða umfjöllun nefndarinnar, umsagnir og gestakomur ákvað nefndin að afgreiða samhljóma nefndarálit með frávísunartillögu og var málinu að lokum vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Mig langar að lesa lokaorð nefndarálitsins sem allir nefndarmenn í velferðarnefnd stóðu að, með leyfi forseta:

„Í greinargerð frumvarpsins er bent á að neyslurými séu fyrst og fremst hugsuð sem úrræði fyrir þá sem eru langt leiddir í fíkn og eygja litla von um að hætta sinni neyslu. Með því að koma á fót neyslurýmum er stigið skref til viðurkenningar á því að þessir einstaklingar séu fyrst og fremst með sjúkdóm. Nefndin telur fulla ástæðu til þess að kanna hvort tilefni sé til að löggjöfin gangi enn lengra í því að koma til móts við þessa einstaklinga svo að þeim verði ekki gerð refsing vegna þess sjúkdóms. Beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna.“

Þetta álit nefndarinnar byggir á þeirri mikilvægu nálgun að okkur beri að nálgast einstaklinga með fíknivanda af samkennd og með skaðaminnkun að leiðarljósi. Sú nálgun hefur smám saman verið að ryðja sér til rúms hér á landi en fyrstu skref í þá átt mátti merkja árið 2014 þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu Pírata, Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum neyslu ávana- og fíkniefna til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Sú þingsályktun byggir á þeirri einföldu en skýru sýn að ríkjandi refsistefna í vímuefnamálum hafi mistekist og að við verðum að horfast í augu við það. Undanfarinn áratug hefur nefnilega orðið bylting í þeim efnum víða um heim. Leiðtogar hafa í vaxandi mæli horfst í augu við þá dapurlegu staðreynd að stríðið gegn fíkniefnum hafi í raun verið stríð gegn fólki. Flestir óvinirnir í því stríði voru bara venjulegt fólk sem gerði það eitt rangt að nota vímuefni, hvort sem það átti við fíknivanda að stríða eða ekki. Fyrir hvern sigur sem við náðum fram bjuggum við aðeins til fleiri neytendur og styrktum undirheimana, enda hvað gerir einstaklingur með fíknivanda þegar síðasti skammturinn hans er gerður upptækur? Hann hættir ekki að nota, nei, hann leitar allra leiða til að finna sér nýjan skammt, hverjar sem þær kunna að vera. Munum að það er ekki svo langt síðan lögreglan gerði upptækan sprautubúnað þegar einstaklingur varð uppvís að því að nota vímuefni í æð og hvað gerir það annað en að gera afleiðingar notkun vímuefna í æð enn verri, t.d. með því að deila nálum? Jafnvel þótt fólk eigi ekki við fíknivanda að stríða er refsistefnan ekki rétta lausnin. Einstaklingar sem nota vímuefni eiga að vera óhræddir við að leita til lögreglu, við eigum öll að vera óhrædd við að leita til lögreglu ef við þurfum á aðstoð lögreglu að halda, óháð því hvort þeir hafi neytt eða hyggist neyta vímuefna eða ekki.

Undanfarin ár hefur lögregla breytt starfsháttum sínum nokkuð án þess að nein sérstök lagabreyting hafi átt sér stað þannig að venjan er orðin sú að einstaklingar með minna magn vímuefna eru síður handteknir og reglum ríkissaksóknara hefur verið breytt þannig að minni háttar vímuefnabrot fari ekki á sakaskrá. Staðreyndin er eftir sem áður sú að varsla og meðferð efnanna, jafnvel þegar um er að ræða mjög lítið magn, er refsiverð. Því verður að breyta. Það er engin gild ástæða fyrir því að refsa neytendum vímuefna og því tel ég það hina rökréttu og eðlilegu niðurstöðu að þetta mál fái góða og skjóta meðferð á þinginu og verði samþykkt.

Þá vil ég einnig koma í stuttu máli að þeirri umræðu sem fram fór, bæði í þingsal og í velferðarnefnd, á síðasta þingi um frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými og hvernig þetta mál tengist því. Það kom nokkur gagnrýni á málið um neyslurými, aðallega frá lögreglu og ríkissaksóknara. Í umsögnum þeirra sagði að ekki væri að finna í gildandi lögum heimild fyrir lögreglu til að semja um refsilaus svæði og lögregla gæti ekki gengið til slíkra samninga án skýrrar lagaheimildar. Það væri í raun ekki undir lögreglu komið að hætta að framfylgja lögum á afmörkuðu svæði heldur þyrfti hún að sinna starfi sínu hvort sem lögin um neyslurými tækju gildi eða ekki.

Rætt var um mögulegar lausnir á þeim vanda en hið einfalda og rökrétta svar er auðvitað að gera vörslu neysluskammta, móttöku og meðferð þeirra refsilausa. Þar sem slíkt frumvarp hefur ekki komið fram frá hæstv. heilbrigðisráðherra er ekki nema eðlilegt að frumvarp um efnið verði lagt fram af handhöfum löggjafarvaldsins, okkur þingmönnunum. Það er enda góður stuðningur við þetta mál þar sem fimm flokkar af átta hafa lýst yfir stuðningi sínum með meðflutningi málsins og kann ég meðflutningsmönnum góðar þakkir fyrir þann stuðning.

Með samþykkt frumvarpsins má því tryggja tvíþætt sjónarmið. Í fyrsta lagi að veita neytendum vímuefna viðeigandi og nauðsynlega vernd gegn refsingum og auðvelda okkur sem samfélagi að veita þeim þá hjálp sem hver þarf. Í öðru lagi að skjóta föstum stoðum undir frumvarp til laga um neyslurými sem vænta má að lagt verði fram á ný og telja má líklegt að afgreitt verði á þessu löggjafarþingi, enda mjög þarft mál. Við höfum nú tækifæri til þess að taka skrefið um afglæpavæðingu neyslu til fulls og legg ég til að við látum það ekki fara forgörðum.

Hvað varðar efni frumvarpsins gerir það tiltölulega einfaldar breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni. 1. mgr. 2. gr. er breytt á þann hátt að ekki sé öll varsla og meðferð lengur refsiverð heldur aðeins sú sem er nánar tilgreind í 4. mgr. Úr 4. mgr. er svo fjarlægð sú háttsemi sem neytendur eru hvað líklegastir til þess að gerast sekir um þó að tilgreint sé sérstaklega að varsla efna verði áfram bönnuð þegar magn þeirra er slíkt að það teljist ekki til eigin nota. Þannig einskorðum við refsinæmi einungis við þá vörslu sem framleiðendur og dreifingaraðilar kunna að gerast sekir um en neytendur ættu þá að verða refsilausir. Með þeirri breytingu hættir lögreglan að hafa heimild til að handtaka þá sem eru með vörsluskammta, gera upptæk efni og beita rannsóknaraðferðum gegn þeim.

Forseti. Ég vil að lokum leggja til og biðja um að málinu verði vísað til velferðarnefndar. Lög um ávana- og fíkniefni heyra undir heilbrigðisráðherra auk þess sem efni frumvarpsins, sem snýr einna helst að skaðaminnkun og heilbrigði neytenda vímuefna, á vel heima á málefnasviði nefndarinnar.