150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er mjög ánægð með þetta mál og styð það. Mér finnst eiginlega eins og það sé mér svolítið skylt því að mér skilst að ég hafi verið fyrsta manneskjan sem talaði fyrir þessu eða sams konar áherslum í vímuefnamálum á Alþingi. Það var 15. nóvember 2012 og ég hafði ekki hugmynd um að ég væri sú fyrsta og mér fannst þetta bara vera almenn skynsemi. En það var víst þannig. Síðar fór ég að skoða þetta og það var mjög margt skrýtið sem hafði verið sagt í þessum málaflokki, til að mynda að börn og unglingar yrðu bólusett gegn fíkniefnavánni ef þau væru mikið í íþróttahúsum. Mér finnst það t.d. mjög skrýtin hugmynd. Ég er mjög glöð að umræðan um þessi mál sé komin á þennan stað, hvað sem verður um þetta frumvarp. Ég skynja mjög sterkt að það er almennur velvilji og skilningur orðinn á þeim málum, ekki bara hér á Alþingi, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli, heldur líka úti í samfélaginu. Það er Rauði krossinn með Frú Ragnheiði og það eru ýmis önnur skaðaminnkunarúrræði og öll sú hugmyndafræði hefur sannað gildi sitt. Ég er ágætlega tengd inn í t.d. Neyðarlínuna og þekki svolítið til á bráðadeild Landspítalans og þar veit ég að fólk sem er að vinna með þennan viðkvæma hóp kannski á þeirra verstu stundum styður mjög þá hugmyndafræði. Mér skilst að það sé líka þannig hjá lögreglunni og þá erum við eiginlega komin hringinn og ekki eftir neinu að bíða.