150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni. Ég vil segja í sambandi við þetta að ég hef verið mikill áhugamaður um þessi mál og að við nálgumst þau á mannlegan hátt. Ég hef talað fyrir því alveg frá því ég tók fyrst sæti á þingi árið 2013. Þá var einmitt mikil umræða hér og þingmenn Pírata töluðu um þessi málefni og unnið var að mótun stefnu um hvernig ætti að taka á þessum málum, þ.e. meðferð fíkniefna og afglæpavæðingu. Ég man að ég hélt ræðu um þetta þá og er alveg á sama stað hvað það varðar að ég myndi vilja sjá þetta verða að veruleika. Vegna þess, eins og komið hefur fram í ræðum, að við erum að fást við fólk, efnið sem slíkt er ekki vandamálið heldur fólkið sem neytir þeirra. Við erum að fást við sjúkdóm, en síðast en ekki síst í mínum huga er það unga fólkið sem byrjar í þessu og ánetjast efnunum, að það er um leið orðið lögbrjótar og þá verður vandinn tvöfaldur frá degi eitt eða tvö og þar af leiðandi er vandamálið tvöfalt.

Það sem hefur breyst frá því að við vorum að ræða þetta fyrir fimm árum er hin rosalega þróun í framleiðslu þessara efna. Það eru til efni í dag, sem geta drepið manneskju með einum skammti. Þess vegna finnst mér svolítið erfitt að taka þetta skref með þessari aðferð núna og set fyrirvara þar á og á svolítið vont með að segja að ég styðji þetta frumvarp algerlega.

Ég hef litið þannig á þetta stóra vandamál okkar jarðarbúa, þessi fíkniefnavandamál, hvort við gætum ekki nálgast þessi mál á sama hátt og við erum að fást við loftslagsvandann í dag, að þjóðir heims myndu taka höndum saman og komast að góðri niðurstöðu um hvernig hægt væri að takast á við þennan vanda. Margar þjóðir hafa gert tilraunir í þessum efnum og það kemur reyndar fram í frumvarpinu að einhverjum hefur gengið sæmilega, en einhverra hluta vegna er þróunin þannig að við töpum oftast í baráttunni við að ráða niðurlögum fíkniefnavandans. Minn draumur er sá að þjóðir heims geti tekið höndum saman og komist að niðurstöðu um að finna góða leið til að ná tökum á þeirri miklu vá sem fíkniefnavandinn er.

Ég hef oft minnst á að fyrir kreppuna 1930 var áfengi bannað. Þá upphófst undirheimastarfsemi og mikil glæpastarfsemi vegna þessa og þá voru þeir orðnir glæpamenn sem framleiddu og seldu áfengi. Nú er áfengi ekki bannað í dag og þar af leiðandi lítið um glæpamenn í þeim geira, en áfengisvandinn er samt sem áður til staðar. Fíknin sér um sína. Þar er mönnum mætt á jafnréttisgrundvelli. Þar er mönnum hjálpað sem vilja þiggja hjálpina. Þannig þarf þetta líka að vera í fíkniefnamálum. Það er þó þannig að þú ert ekkert spurður hvort þú varst að neyta ólöglegra efna þegar komið er t.d. í meðferð, en þú ert orðinn lögbrjótur. Kannski mætti líka skoða að taka það skref að sá sem er tekinn með fíkniefni og fer á sakaskrá, að sá tími sé styttur sem viðkomandi er á sakaskrá. Það væri kannski fyrsta skrefs vinna eða eitthvað í þá áttina, því að svo virðist vera að blessaða sakaskráin elti einstaklinga ansi lengi, kannski ekki opinberlega, en alltaf er hægt að pikka það upp við þannig aðstæður ef menn vilja það við hafa.

Ég skil meininguna og ég er alveg sammála henni en ég er svolítið hræddur um að þróunin í þessu sé komin á þann stað í dag að við séum komin með efni, eins og ég sagði áðan, sem þarf mjög lítinn skammt til að deyða. Og staðan er þá orðin þannig að ég set spurningarmerki við frumvarpið m.a. þess vegna. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, læt þetta gott heita að sinni.