150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:43]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir andsvarið. Ég verð bara að viðurkenna að ég veit ekki svarið við því hvernig ég vil sjá þetta. Ég er í raun og veru sammála inntaki frumvarpsins en miðað við hvernig málin hafa þróast set ég fyrirvara við það. Þó að við myndum koma þessu máli í gegn og varsla neysluskammta yrði afglæpavædd væri samt sem áður ekkert á umbúðunum sem sýndi hvað fólk væri að fara að taka inn, af því að þingmaðurinn minntist á upplýsingar um innihald efna. Það myndi samt sem áður vera í umferð. Þau efni sem ég minntist á hafa þróast á síðustu örfáum árum.

Ég varpaði fram stórri hugmynd um samstarf á milli landa, sem er náttúrlega svolítið langsótt. En þetta er allt saman mjög langsótt, því miður. Ég verð bara að leyfa mér að halda áfram að spyrna aðeins við fótum og hugsa málið miklu betur. Ég mun fylgjast með þessu máli og taka þátt í umræðunni áfram, alveg fordómalaust. En ég er bara ekki sannfærður um að þetta sé það sem virki í dag.