150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir. Ég átta mig ekki alveg á hvort ég hafi sagt að það ætti að minnka brotið. Ég talaði um styttingu á tímanum á sakaskrá. Það var það sem ég meinti. Það er þannig í dag að ef þú, hv. þingmaður, hefðir farið að kaupa þér ólögleg efni eftir að þú varst á þessum lyfseðilsskyldu fíkniefnum á sínum tíma hefðir þú orðið brotlegur eins og lögin eru í dag. (Gripið fram í.) Því miður. Eins og ég sagði við hv. þm. Halldóru Mogensen áðan er ég alveg sammála því að þetta sé stórt vandamál. Ég er ekki að segja að ég vilji minnka brotið en það má kannski taka einhver skref í þessu. Eins og ég sagði áðan í ræðu hafa tímarnir breyst og bara á þeim fimm árum síðan ég kom fyrst á þing og ræddi þau mál og fannst þau mjög einföld hafa þau flækst, efnin hafa þróast og fíkniefnaheimurinn er slunginn. Mér finnst þetta ekki eins einfalt í dag og mér fannst það þá, það er eiginlega svarið.