150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[18:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við erum svolitlir hræsnarar. Það er ótrúleg hræsni í kerfinu þegar við erum með lyf, rosalega sterk lyf, sem eru lögleg, sem læknar geta ávísað og fólk getur fengið og það getur líka drepið sig á þeim, það getur líka orðið fíklar af þeim. Þú getur keypt lögleg lyf og verið í vímu af þeim, þú getur bara gengið að því. Ef maður gerir það með löglegum hætti er það í lagi en ef maður fer eitthvað út fyrir rammann og er eiginlega að gera nákvæmlega sama hlutinn er það ólöglegt. Það segir okkur að við verðum að stokka þetta kerfi upp. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér. Við verðum að stokka þetta kerfi upp í heild sinni. Við verðum að fara að horfa á þetta frá allt öðru sjónarhorni.