150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

almannatryggingar.

135. mál
[19:02]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Ásamt mér er á frumvarpinu Guðmundur Ingi Kristinsson. Við höfum gjarnan talað um að það sé virkilega bagalegt þegar löggjöfin er þannig úr garði gerð að hægt sé að hártoga hana í allar áttir og að lagaákvæðin séu ekki nægjanlega skýr, eins og fram kom hjá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson á undan mér, þar sem hún talaði um 69. gr. annarra laga en þeirra sem ég er að fara að fjalla um núna, 69. gr. almannatryggingalaganna. Væri afskaplega góður bragur á því ef við tækjum okkur saman í andlitinu og ynnum í löggjöfinni þannig að yfir allan vafa væri hafið hvað við værum að meina og hvað við værum að segja með þeim reglum sem við setjum fyrir borgarana.

Áður en ég vík að frumvarpinu langar mig að nefna tilurð þess að við í Flokki fólksins köllum eftir þessari breytingu. Frá því að ég kom hingað sem kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga hef ég gjarnan vísað í 69. gr. almannatryggingalaga sem hefur verið brotin hvað varðar greiðslur til almannatryggingaþega að mínu mati, hvernig leiðréttingin sem kemur alltaf sjálfkrafa um hver áramót hefur verið látin fylgja neysluvísitölu í staðinn fyrir að fylgja almennri launaþróun í landinu, eins og ég vil túlka 69. gr. laganna og meina að hún þýði. Þess vegna hef ég líka boðað að Flokkur fólksins muni leita eftir sannleikanum í málinu fyrir óvilhöllum dómstóli og erum við að vinna að slíkri málssókn. Öryrkjabandalag Íslands hefur líka leitað eftir því að fá álit frá umboðsmanni um það hvað greinin er að segja.

Mig langar að vísa til ábendingar umboðsmanns Alþingis um lagareglu vegna hækkunar á bótum almannatrygginga þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður hefur bent stjórnvöldum á að huga þurfi betur að því hvaða tilgangi ákvæði í lögum um almannatryggingar, er varðar viðmið um launaþróun, sé ætlað að þjóna og hvort gera megi það skýrara.“

Það er akkúrat það sem við í Flokki fólksins erum að leggja til núna, að gera regluna skýrari og taka af allan vafa um það hvað hún er að segja. Jafnframt bendir umboðsmaður Alþingis á að það væri betra í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að ítarlegri skýringar væru í fjárlagafrumvarpi á forsendum breytinga á bótum.

Hér er talað um bætur. Við höfum gjarnan viljað segja að þetta sé framfærsla. Þetta eru laun lífeyrisþeganna sem okkur þykir frekar niðrandi að kalla bætur. Við viljum ekki kalla þetta örorkubætur eða annað slíkt, þetta er lífeyrir Tryggingastofnunar. Þetta er framfærsla okkar sem á því þurfum að halda.

Ofangreind tilvitnun „kemur fram í bréfi sem umboðsmaður hefur sent þeim ráðherrum sem fara með framkvæmd laga um almannatryggingar og fjárlaga auk velferðarnefndar Alþingis, í kjölfar kvörtunar frá Öryrkjabandalagi Íslands. Laut hún að ákvörðunum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvernig launaþróun er metin við gerð tillögu til fjárlaga um breytingar á fjárhæðum bóta. Gerði bandalagið m.a. athugasemdir við að almennt sé svokallað launaskrið dregið frá launavísitölu við útreikning og forsendur hlutfallshækkunar bóta almannatrygginga.

Samkvæmt lagaákvæðinu sem um ræðir skulu bætur almannatrygginga breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Það er hérna sem fram kemur í hverju frumvarpið, sem ég ætla að kynna ykkur á eftir, raunverulega felst, hvað það felur í sér. Það lýtur akkúrat að því að snúa þessu við frá gildandi reglu sem er opin í báða enda.

Þá stendur hér:

„Af forsögu ákvæðisins má ráða að þegar talað er um að hækkun bóta skuli taka mið af launaþróun hafi ekki verið ætlun löggjafans að festa hækkanir við tiltekna vísitölu, líkt og launavísitölu. Því hafi ráðherra tiltekið svigrúm til að meta og taka mið af ólíkum aðstæðum þegar reyni á launaþróun. Ekki verði annað séð en tillögur um hækkun bóta í fjárlagafrumvörpum 2018 og 2019 hafi í báðum tilvikum gert ráð fyrir meiri hækkun en spáð hafi verið samkvæmt vísitölu neysluverðs og því ekki verið í bága við lagaákvæðið.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu taldi umboðsmaður ástæðu til að vekja athygli viðeigandi stjórnvalda á þeim álitaefnum sem Öryrkjabandalagið benti á í kvörtun sinni og tekin voru til athugunar. Benti hann þeim á að taka afstöðu til þess hvort búa megi því fjárlagaverkefni, sem leiði af umræddu lagaákvæði um launaþróun, skýrari lagagrundvöll. Almennt sé litið svo á að þegar reyni á stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna, til að mynda til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku eða elli, verði að gera ríkari kröfur en að jafnaði um útfærslu löggjafans á þeim réttindum.

Þá kynni að fara betur á að gera frekari grein fyrir því í frumvarpi til fjárlaga ef hækkun bóta taki t.d. ekki mið af nafnlaunahækkunum sem notaðar séu annars staðar í frumvarpinu. Ítarlegri skýringar væru í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Í bréfi umboðsmanns segir að framsetning og skýringar á tillögu um breytingar á greiðslum bóta geti haft verulega þýðingu fyrir þá sem styðjist við þessar greiðslur.“ — Það er algjör grundvallarþýðing vegna þess að kjaragliðnun hvað lýtur að þessum þjóðfélagshópi er hvorki meira né minna en 29% á síðustu tíu árum. — „Mikilvægt sé fyrir hlutaðeigandi að geta áttað sig á hvernig þeim mælikvörðum, sem nota beri við fjárlagagerð, hafi verið beitt svo þeir geti eftir atvikum komið athugasemdum sínum á framfæri við Alþingi. Slíkt væri liður í því starfi stjórnvalda að auðvelda borgurunum, á grundvelli betri upplýsinga, að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni og um málefni sem Alþingi fjalli um.“

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að snúa mér að því að kynna breytinguna í frumvarpinu um almannatryggingar. 1. gr. frumvarpsins hljóðar svona:

„69. gr. laganna orðast svo:

Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur samkvæmt 63. gr. og fjárhæðir samkvæmt 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Þarna snúum við þessu algjörlega við. Allur vafi er hér tekinn af um að það skuli ávallt, undantekningarlaust og algjörlega án nokkurs vafa við útreikninga á leiðréttingu á framfærslu almannatrygginga stuðst við launaþróun í landinu, launaþróun en ekki vísitölu neysluverðs nema hún sé hagkvæmari.

Í 2. gr. er sagt að 7., 12., 15. og 17. töluliður ákvæðis til bráðabirgða í lögunum eigi að falla brott.

Í 3. gr. segir að lög þessi öðlist þegar gildi en komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019.

Í greinargerð segir:

Samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, skulu fjárhæðir bóta almannatrygginga, meðlagsgreiðslur samkvæmt 63. gr. laganna og fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt 22. gr., breytast árlega í samræmi við fjárlög og skal ákvörðun þeirra taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Mögulega hefur verið stefnt að því í upphafi að tryggja að öryrkjar og ellilífeyrisþegar njóti hækkunar á ráðstöfunartekjum í sama hlutfalli og almenningur, eins og almennt gengur og gerist. Í reynd hefur framkvæmdin þó verið önnur og virðist meginreglan vera sú að vísitölu neysluverðs er fylgt við ákvörðun bóta þó að hún hækki mun minna en launavísitölur. Þar sem Alþingi fer með fjárstjórnarvaldið samkvæmt 41. gr. stjórnarskrárinnar og núverandi löggjöf felur Alþingi að ákvarða hækkanir bóta hafa dómstólar talið það falla utan hlutverks síns að dæma um hvort rétt hafi verið staðið að hækkun bóta samkvæmt 69. gr. laga um almannatryggingar. Því er hér lagt til að hækkun bóta fylgi ávallt launaþróun eins og hún kemur fram í launavísitölu Hagstofu. Tenging bótafjárhæða við vísitölur þekkist í öðrum lögum, t.d. breytast fjárhæðir skaðabóta mánaðarlega í samræmi við lánskjaravísitölu, samanber 15. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Í frumvarpinu er lagt til að fjárhæðir bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar taki mið af þróun launavísitölu. Verður að telja það fyrirkomulag sanngjarnt þar sem bætur greiddar á grundvelli laganna eiga almennt að koma í stað atvinnutekna sem öryrki getur ekki aflað sér eða ellilífeyrisþegi nýtur ekki lengur. Þá nýtur ríkissjóður aukinna tekna þegar laun hækka þar sem stofn tekjuskatts hækkar. Því er ákveðið samræmi á milli aukinna útgjalda ríkissjóðs og aukinna tekna. Þá er lagt til að bætur hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er tryggt að bætur lækki ekki skyndilega ef launaþróun er neikvæð.

Einnig er lagt til að felldir verði brott þeir töluliðir ákvæðis til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar sem vísa til 69. gr. og hafa ekki lengur þýðingu.

Ég er afskaplega stolt af því að við skulum vera komin fram með breytingar á frumvarpinu sem taka af allan vafa um hinn eiginlega tilgang 69. gr. almannatryggingalaganna. Í greinargerð um þessa grein í frumvarpinu á sínum tíma og í lögskýringargögnum og þeirri tilurð að 69. gr. er alveg ljóst hver vilji löggjafans var. Vilji löggjafans var aldrei sá að skilja öryrkja eftir og þá sem þurfa alfarið að reiða sig á framfærslu sína samkvæmt 69. gr. almannatryggingalaganna. Vilji löggjafans var aldrei slíkur þó að í framkvæmd hafi þessu verið beitt ansi lengi. Mig minnir að til ársins 2013 hafi alltaf verið hafður fyrirvari á 69. gr. af því að vitað var að verið væri að ganga á svig við hina eiginlegu meiningu greinarinnar um að fylgja almennri launaþróun í landinu, þannig að það var sniðgengið. Sérstaklega eftir hrun þurftu öryrkjar og þeir sem sátu í neðsta þrepinu og áttu hvað bágast að taka á sig sinn skell eins og allir aðrir og þeir voru ekkert undanskildir. Sá skellur hefur sannarlega ekki verið bættur enn og það er eiginlega dapurlegt frá því að segja, og ég endurtek það sem ég sagði áðan, að 29% kjaragliðnun — bilið á milli þeirra sem þurfa alfarið að reiða sig á og geta einungis lifað af framfærslu almannatrygginga verður alltaf stærra. Núna er t.d. ríflega 30.000 kr. munur á mánuði hjá þeim sem þurfa að reiða sig á almannatryggingaframfærsluna versus þá sem eru á atvinnuleysisbótum. Ég segi ekki annað en að þau skilaboð sem sífellt er verið að senda þessum þjóðfélagshópi um að mjólkurlítrinn, brauðið og kartaflan sé eitthvað ódýrara þegar öryrki og fátækt fólk fer út í búð til að kaupa, að það sé eitthvað ódýrara fyrir þann hóp og þess vegna þurfi hann færri krónur, eru ljót, virkilega ljót skilaboð. Auðvitað kostar mjólkurlítrinn öryrkja og ellilífeyrisþega sem ekki hafa á neitt annað að reiða sig en 69. gr. þeirra almannatryggingalaga jafn mikið. Þess vegna vona ég að á þessu verði tekið. Þetta er engin grundvallarbreyting nema bara sem lýtur að skýrleika. Þetta er hreinlega aukinn skýrleiki og auðveldara að vinna með greinina þannig að það sé yfir allan vafa hafið hvað við erum að tala um. Ég er afskaplega bjartsýn á að utan um þetta verði tekið. Ég get ekki skilið hvers vegna svo ætti ekki að vera. Það kæmi mér verulega á óvart.

Ég hef litlu við þetta að bæta nema bara að nú ætla ég að vísa málinu til hv. velferðarnefndar — nema það sé efnahags- og viðskiptanefnd.

(Forseti (HHG): Forseti hefur þær upplýsingar að málið fari til velferðarnefndar, þ.e. ef enginn hreyfir andmælum.)

Ég hreyfi engum andmælum, virðulegi forseti, og hér með hlakka ég til að málið fari fyrir hv. velferðarnefnd, fái þar vonandi góðar viðtökur og að við fáum það sem fyrst aftur inn í þingið til að geta fjallað um það saman og jafnvel vonandi þá miklu fleiri en ekki bara þrjú í salnum eins og við erum núna.