150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

ráðherrar til svara í óundirbúnum fyrirspurnum.

[10:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það sem fram hefur komið hér, gagnrýni á þetta skipulagsleysi og þær afleiðingar sem það hefur á getu stjórnarandstöðunni til að sinna hlutverki sínu. Af því að þingið er ekki þrúgað af stjórnarmálum á dagskrá langar mig hins vegar að varpa þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort það sé mögulegt að lengja þennan óundirbúna fyrirspurnatíma þannig að við ættum möguleika á að bæta við þær fyrirspurnir sem þegar voru skipulagðar í ljósi fyrirliggjandi dagskrár þannig að við fengjum færi á að spyrja hæstv. félags- og barnamálaráðherra spjörunum úr fyrst hann er kominn hingað. Ég velti fyrir mér hvort þetta gæti verið leið til að bregðast við þessum skorti á skipulagi.