150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

innrás Tyrkja í Sýrland.

[10:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins um afstöðu flokksins og ríkisstjórnar til innrásar Tyrkja í Sýrland, þar sem verið er markvisst að fara gegn Kúrdum. Sumir segja, og eru þegar með yfirlýsingar um það, að byrjað sé að slátra þeim, eins og ein yfirlýsing var í blaði sem ég las í morgun. Junker hjá Evrópusambandinu er búinn að fordæma þetta skilyrðislaust. Þjóðverjar, sem er reyndar mjög athyglisvert því að Þjóðverjar og Tyrkir eru í mjög nánu og góðu pólitísku sambandi, eru mjög afdráttarlausir undir forystu Merkel og fordæma þessa innrás. Það sama gildir um Frakka.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála þessum yfirlýsingum og um leið sammála þeirri yfirlýsingu sem kom mjög skýrt og afdráttarlaust fram frá þingflokki Vinstri grænna í gær, þar sem hann hvetur ríkisstjórnina til að fordæma þessa innrás og reyna að fara í aðgerðir sem stuðla að friði. Mig langar gjarnan að fá að vita hvernig ráðherrann sjái það hvernig ríkisstjórnin eigi að bregðast við þessu. Á að fordæma þetta, eða sitja hjá? Hver verða viðbrögð ríkisstjórnarinnar?