150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

innrás Tyrkja í Sýrland.

[10:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Spurt er um stefnu ríkisstjórnar og stefnu flokks. Um er að ræða átakasvæði, viðkvæmt svæði og svæði þar sem erlend ríki hafa haft aðkomu, í þessu tilviki Bandaríkjamenn. Það hefur lengi verið gagnrýnt hér í þessum sal þegar Bandaríkjamenn hafa haft afskipti af innanríkismálum annarra ríkja en í þessu tilviki eru Bandaríkjamenn að draga úr mannfjölda á svæðinu og það hefur í kjölfarið þessar afleiðingar. Við munum áfram ræða þetta mál á réttum vettvangi, í utanríkismálanefnd, og eigum eftir að ræða málið sérstaklega í ríkisstjórninni.

Það sem ég get sagt á þessum tímapunkti er: Að sjálfsögðu hefur maður djúpar og miklar áhyggjur af ástandinu á þessu svæði. Alls staðar þar sem mannslífum er fórnað er ástæða til þess að lýsa yfir miklum áhyggjum. Þetta er ófriðarsvæði, hefur verið stríðshrjáð um langt skeið, algjört hörmungarástand sem þar ríkir. Ég veit ekki hvort það væri til þess að hjálpa til við að laga það ástand að taka afstöðu með einstökum aðilum á deilusvæðinu. Á þessum tímapunkti ætla ég þó að segja að ég hef mjög miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin og það þarf mjög mikið til að koma svo að maður geti réttlætt það að eitt ríki fari yfir landamæri annars og hafi þar afskipti.