150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

innrás Tyrkja í Sýrland.

[10:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í þessu máli eins og öðrum, ef hægt er að nefna einhver önnur til samanburðar, mun það verða meginsjónarmið íslenskra stjórnvalda að tala fyrir því sem getur leitt til friðar á svæðinu þar sem mannslífum verður hlíft. Það sem við sjáum gerast í þessu tiltekna dæmi er að þarna hafa mjög sterk öfl verið að takast á og í tilviki Bandaríkjamanna hafa þeir verið að koma inn á vígasvæði og eru að draga úr aðkomu sinni sem setur af stað atburðarás. Af hálfu Tyrkja er því haldið fram að það sé nauðsynlegt fyrir þá til að verja landamæri sín að grípa til aðgerða. En það er ekki hægt að horfa upp á það aðgerðalaust og átölulaust þegar mannslífum er fórnað í þúsundavís. Ég held að langbest fari á því, þegar spurt er fyrir hverju Ísland vilji tala í málum sem þessu, að við reynum að forðast flokkspólitísk átök á Íslandi og komum skýrum skilaboðum út um frið og aðgerðir sem geta stuðlað að friði og uppbyggingu þeirra samfélaga sem við sjáum nú að eru í rúst á svæðinu.