150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

uppsagnir bankastarfsmanna og nýbygging Landsbankans.

[10:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fjármálaþjónusta hefur breyst hratt á skömmum tíma. Áhrif fjártæknibyltingarinnar á fjármálageirann gætu orðið mjög djúpstæð fyrir bankastarfsemi. Samkeppni milli fyrirtækja mun aukast, verð á fjármálaþjónustu lækka og tími og fyrirhöfn vegna bankaþjónustu minnka. Hefðbundnir viðskiptabankar sem starfa á þeim grundvelli sem við þekkjum í dag munu þurfa að endurhugsa þjónustu- og viðskiptalíkön sín til að viðhalda starfsemi sinni.

Vegna þessa standa flestir bankar í umsvifamiklum aðgerðum til að lækka kostnað. Helstu leiðir sem farnar hafa verið í því eru uppsagnir starfsfólks, lokanir útibúa og þróun nýrra tæknilausna. Þetta kemur m.a. fram í hvítbók um fjármálakerfið. Uppsagnir starfsfólks í bönkunum hafa ekki farið fram hjá okkur. Arion banki sagði upp á dögunum 100 starfsmönnum, frá því í vor hefur Íslandsbanki sagt upp um 40 starfsmönnum. Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja segja að 150 félagsmenn hafi misst vinnuna í september. Hugur okkar er með þeim öllum á erfiðum tímum.

Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að mikill samdráttur sé í starfsmannahaldi bankanna en víkjum þá að Landsbankanum sem er 98% í eigu ríkisins. Bankastjóri Landsbankans segir að bankinn sé í almennum hagræðingaraðgerðum og að starfsfólki hafi fækkað mjög mikið síðustu árin. Þrátt fyrir almennar hagræðingaraðgerðir, mikla fækkun starfsfólks og gjörbreytt starfsumhverfi stendur Landsbankinn í stórframkvæmd á Hafnartorgi upp á tæpa 17.000 fermetra og byggir nýjar höfuðstöðvar fyrir milljarða króna á einni dýrustu lóð landsins.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þess sem ég nefndi: Er þessi framkvæmd Landsbankans forsvaranleg og hvers vegna hafa fulltrúar eigenda ríkisins í stjórn bankans látið þetta viðgangast?