150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

uppsagnir bankastarfsmanna og nýbygging Landsbankans.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér ber upp spurningu þingmaður sem fyrir rúmu ári lagði til að ríkið myndi auka við hluti sína í fjármálafyrirtækjum. Þingmaðurinn taldi það glapræði af hálfu ríkisins að selja hluti í Arion banka vegna þess að verðið væri rangt. Þá sagði þingmaðurinn að ríkið væri að gefa hluti í Arion banka.

Hvað hefur markaðurinn sagt um þá fullyrðingu í millitíðinni? Markaðurinn virðist hafa sagt eitthvað þveröfugt. Ef við skoðum markaðsgengi Arion banka frá því að ríkið seldi hefur það komið vel út. Maður spyr einmitt í ljósi þeirra miklu breytinga sem þingmaðurinn talar um að séu að verða á umhverfi fjármálafyrirtækja, bæði kerfislega mikilvægra banka en líka annarra fjármálafyrirtækja, hvort ekki sé þeim mun brýnna að við mörkum skýra stefnu um að draga ríkið út úr slíkri starfsemi. Hér eru rakin dæmi um hvernig starfsmannafjöldi hefur þróast í einstaka viðskiptabönkum og það er rétt að þeir hafa allir dregið úr starfsmannafjölda og á tiltölulega skömmum tíma hefur orðið alveg stórkostleg fækkun útibúa í landinu. Það hefur gerst í skrefum en við horfum upp á alveg gjörbreytt umhverfi.

Það er síðan borið undir mig hvort ég telji það góða ráðstöfun hjá Landsbankanum að byggja sér nýjar höfuðstöðvar. Ég held að það sé góð ráðstöfun hjá bankanum að draga stórkostlega úr fermetrafjöldanum. Ég á hins vegar erfitt með að leggja mat á hvort fjárfestingin í sjálfu sér sé góð, en að sjálfsögðu hefur maður hugsað hvort það sé gott fyrir banka í ríkiseigu að binda jafn mikið fjármagn og mun þurfa í þá byggingu. Það sem ég sé málinu til framdráttar er að þetta verður eflaust góð eign (Forseti hringir.) og bankinn mun draga mjög verulega úr heildarnotkun fermetra eins og kynnt hefur verið fyrir Alþingi.