150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

uppsagnir bankastarfsmanna og nýbygging Landsbankans.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn verður að þola að hans eigin orð séu rifjuð upp í þingsal. Þingmaðurinn hefur verið mjög áhugasamur um viðskiptabankastarfsemi í landinu. Hann stóð í þessum sal og talaði um að það væru góð viðskipti fyrir ríkið að auka hlut sinn í Arion banka, að það væri glapræði að selja hlutabréf í bankanum. (BirgÞ: Á undirverði.) — Á undirverði, sem hann kallar, en markaðurinn hefur svarað því hvert verðið er. Það hefur komið í ljós að þetta var algjör þvættingur í hv. þingmanni. Hann verður að þola að rifjað sé upp að það hefur komið afskaplega illa út fyrir hv. þingmann að hafa talað fyrir því (Gripið fram í: … fyrirspurnir.) að ríkið héldi á enn auknum hlut í Arion banka. Það hefur komið afskaplega illa út fyrir hann. Það var góð ráðstöfun hjá ríkisstjórninni að selja þá eignarhluti. (Gripið fram í: Gefa þá.) — Að gefa, kalla menn. Það er með ólíkindum að hlusta á þennan málflutning þegar ríkið losaði upp á milljarðatugi um eignarhluti sína í Arion banka.

Varðandi fyrirhugaðar nýjar höfuðstöðvar Landsbankans er fjármálaráðherrann ekki að byggja þær. (BirgÞ: Þú heldur á hlutabréfinu.) (Forseti hringir.) Þingið lagðist gegn því þegar ég lagði það til við þingið að við tækjum málefni Landsbankans og annarra fjármálafyrirtækja nær fjármálaráðuneytinu. Þá lagði þingið ofuráherslu á að halda því öllu saman í armslengd frá fjármálaráðuneytinu (Forseti hringir.) í Bankasýslunni. Landsbankinn mun veita svör og þau munu koma hingað til þingsins.