150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

nýbygging Landsbankans.

[11:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég aðeins halda því til haga í umræðunni vegna þess að það er kallað hér úr sal að fjármálaráðherrann haldi á hlutabréfinu að það er rangt. Það var komið á fót sérstakri stofnun til að halda á hlutabréfinu. Hlutabréfið er ekki í fjármálaráðuneytinu, það er í Bankasýslunni.

Í öðru lagi skil ég vel að menn spyrji spurninga þegar jafn dýrar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í fyrirtæki sem ríkið á að fullu leyti eða u.þ.b. 98%. Svörin sem hafa verið gefin af Landsbankanum snúast um það að bankinn er nú þegar á einni dýrustu lóð í á Íslandi hér handan við þinghúsið eða fyrir framan þinghúsið. Það er verið að draga verulega úr nauðsynlegum fermetrafjölda og þar munar miklu, húsnæðið mun nýtast bankanum betur og síðan verður auðvitað að taka með í reikninginn að á móti útgjöldum myndast eign. Það myndast eign á móti útgjöldum. Þetta eru atriði sem menn hljóta að þurfa að taka með í reikninginn og það verður losað um mjög miklar eignir á sama tíma.

Að öðru leyti stend ég ekki hér til að verja ákvörðun sem ég tók ekki. Ég hef ekki tekið ákvörðun um neina byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans. Það bara er ekki þannig. Að því leytinu til hvet ég hv. þingmenn sem hafa áhuga á málinu að kalla eftir upplýsingum inn í viðkomandi þingnefnd.