150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

aðgangur að gögnum úr Panama-málinu.

[11:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Meira um samhengi. Umfang stórra skattrannsóknarmála á undanförnum árum einskorðast ekki við gögn sem komu úr Panama-skjölunum. Það er einnig hægt að benda á fjárfestingarleið Seðlabankans þar sem rakin hefur verið möguleg slóð peninga til skattaskjóla og svo aftur til baka í gegnum afsláttarleið Seðlabankans.

Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2020 er síðan loksins komið inn fjármagn til að efla rannsóknir gegn skattsvikum, loksins þegar þarf að finna eitthvert fjármagn til að vega upp á móti niðursveiflu hagkerfisins. Í ræðu frá því 1. febrúar 2016 talaði fjármálaráðherra um nauðsyn þess að auka samvinnu stofnana en í dag sjáum við að helsta ástæða þess að skattrannsóknarstjóri þurfti að fella niður 66 mál var sú að málsmeðferð þeirra, annars vegar hjá skattyfirvöldum og hins vegar hjá héraðssaksóknara, var ekki nægilega samtvinnuð í efni og tíma, eins og kemur fram í frétt Kjarnans um málið. Við vorum sein að innleiða reglur um CFC-félög. Við innleiðum lög um peningaþvætti á síðustu stundu með ólýðræðislegri málsmeðferð og klúðrum skattrannsóknarmálum upp á milljarða vegna vandamála sem við vitum af. Hvað finnst fjármálaráðherra um að milljarðar hafi glatast á hans vakt sem leiðir til aukinnar skattbyrði allra annarra?