150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir yfirferð yfir mjög áhugavert mál og ég hlakka til frekari vinnslu með málið á þingi. Það er sannarlega af nægu að taka. Mig langar í fyrstu umferð aðeins að velta einu upp sem kom upp í hugann við fyrstu umferð í lestri. Það kemur sem sagt fram í máli hæstv. ráðherra að ætlunin sé að áætlunin verði hluti af samþættri heildstæðri stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum og ég velti fyrir mér hvar umhverfismálin komi þar inn í. Þá langar mig sérstaklega að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvar og hvernig vinna við fyrirhugaða stofnun miðhálendisþjóðgarðs kemur inn í þetta. Sú vinna er í fullum gangi og sú sem hér stendur er í þeirri nefnd sem er að skoða þau mál. Verið er að tala um að stofna þjóðgarð til að vernda náttúrulegt vistkerfi, minjar, landslag og annað slíkt, að ná utan um þessi náttúruverðmæti okkar. Það er mikilvægt að unnið sé í þéttri samvinnu við sveitarfélögin, ekki síst með tilliti til atvinnustefnu á þessum svæðum o.s.frv. Er það komið í eitthvert ferli? Ég hef hreinlega ekki haft tíma til að kynna mér málið nægilega vel en ég sé það ekki í fyrstu umferð. Er þetta samþætt einhvern veginn þar inni? Mér þætti mjög áhugavert að fá að heyra það frá hæstv. ráðherra sem og um umhverfismál almennt, hvar þau er að finna í þessari mikilvægu stefnu.