150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Varðandi samþættingu áætlana eru allar áætlanir sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í samgönguáætlun, þær eru hluti af þeim stefnum sem þar eru. Í fjarskiptaáætlun er fjallað um umhverfismál. Það er líka tekið mið af landsskipulagsstefnu sem fjallar umtalsvert um umhverfismál. Ef ég man rétt er í núgildandi landsskipulagsstefnu ekki í sjálfu sér verið að fjalla beint um miðhálendisþjóðgarð enda er það seinni tíma ákvörðun og kæmi þá væntanlega inn í næstu landsskipulagsstefnu. Það tengist alls ekki beint og alls ekki þessari áætlun sveitarfélaganna.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni, það er ekki bara mikilvægt heldur algjörlega nauðsynlegt að sveitarfélögin hafi beinan aðgang að þessari nefnd og þess vegna eru tveir fulltrúar frá sveitarfélögunum í nefndinni um miðhálendisþjóðgarðinn, reyndar fulltrúar sem báðir hafa setið áður í svæðisráðum um miðhálendið og eru stútfullir af þekkingu er varðar þá þætti. Ég veit líka að sveitarfélögin, til að mynda á Suðurlandi, sem þessir hagsmunir varða hvað mest — þar eru flestar virkjanir landsins og þar er líka mesti ferðamannafjöldinn og þær perlur sem þar eru — hafa hafið vinnu við svæðisskipulag þar sem miðhálendið er undir. Það tengist miðhálendisþjóðgarðsvinnunni. Miðað við kjördæmavikuna í síðustu viku var í þeim sveitarfélögum dálítið sterkur hljómur fyrir því að þau yrðu að fá að klára þá vinnu og leggja hana inn í miðhálendisþjóðgarðinn og vinnu við hann. Það tengist ekki beint þessum 11 aðgerðum hér. Hér er meira verið að fjalla um hvernig við getum eflt sveitarstjórnarstigið með lýðræðislegri sjálfsstjórn og tryggt að íbúar, hvar sem þeir búa á landinu, fái sem jafnasta þjónustu af hálfu hins opinbera. Það er svolítið verkefni okkar (Forseti hringir.) í samskiptum við sveitarfélögin að tryggja það.