150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Stóra málið í þessu er, eins og við höfum kannski orðið vör við, hið lögbundna þvingunarúrræði til að sameina sveitarfélögin. Ég hef efasemdir um þá aðferðafræði og tel mikilvægt að við hugum að vilja íbúanna í hverju sveitarfélagi fyrir sig, landfræðilegri stöðu og væntingum þeirra til framtíðarinnar, ef svo má segja, í stað þess að ganga fram með þvingunarúrræði. Sú leið getur verið varasöm. Þarna er verið að setja ákveðið fordæmi. Aðferð eins og þessi er ekki byggð á þekktri lýðræðisvitund almennings, ef svo má að orði komast.

Þetta er umdeilt. Á aukaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga var þetta eina málið á dagskrá og þar kom greinilega fram að málið er umdeilt. Nokkur sveitarfélög hafa sagt sig frá samtökunum vegna þessa og það er að sjálfsögðu áhyggjuefni að hinn sameiginlegi vettvangur sveitarfélaganna, sem við þekkjum öll að gegnir mikilvægu hlutverki, skuli vera svolítið sundraður út af þessu máli. Það er ákveðið neyðarúrræði að fara þessa leið en fyrir eru í boði ákveðnir hvatar fyrir sveitarfélögin til að sameinast sem hafa gefið góða raun, eins og t.d. við sameiningu Garðs og Sandgerðis. Það voru ekki margir sem áttu von á því að þau sveitarfélög gætu sameinast en það varð að veruleika.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Eru fullreyndir þeir hvatar sem eru í boði? (Forseti hringir.) Hver er ástæðan fyrir því að farin er þessi leið? Virka hvatarnir ekki?