150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég minni á að það hafa verið gerðar rannsóknir á sameiningu sveitarfélaga þar sem fram hefur komið að hún hefur tekist misjafnlega vel. Í sumum sveitarfélögum, þeim minni, hefur þjónustan jafnvel versnað við sameiningu, það hefur verið ákveðið að leggja niður skóla og aka börnum um lengri vegalengd o.s.frv. þannig að þetta er nokkuð sem á að sjálfsögðu rétt á sér í þessari umræðu.

Ég vildi koma inn á annað í því sambandi. Ég tel fulla þörf á því að í þessari tillögu séu ræddar og fundnar lausnir á ákveðnum lýðræðishalla innan hins sameiginlega vettvangs sveitarfélaga. Hinn svokallaði fjórflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Vinstri grænir og Samfylkingin, hafa á þessum sameiginlegu vettvangi, í nefndum, hjá jöfnunarsjóði, lánasjóði o.s.frv., u.þ.b. 60% fulltrúa (Forseti hringir.) á sama tíma og hann hefur um 30% sveitarstjórnarfulltrúa á landsvísu. Er ekki eðlilegt að reyna að vinna á þeim lýðræðishalla? Það kæmi þá inn í stefnumörkun eins og hér hefur verið rætt um.