150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrra atriðið tek ég undir með hv. þingmanni, reynslan hefur sýnt, bæði í rannsóknum og svona af tilfinningu manna að dæma, að sameining er misjöfn. Þess vegna var ég að fjalla um þessar ábendingar frá Byggðastofnun um að hugsanlega væri skynsamlegt þegar kemur til kasta frumvarps næsta vor á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu að skrifa með skýrum hætti hvað þurfi að skilgreina við jaðarbyggðir eða byggðir sem fara halloka innan sveitarfélagsins og að sveitarfélagið sjálft þurfi að hafa á því skoðun, þ.e. að sveitarfélögin geti ekki í krafti þess svæðis þar sem stóri massinn býr látið sig hin svæðin engu skipta vegna þess að það sé mál íbúanna í þeim sveitarfélögum. Og það má skrifa inn í lögin.

Varðandi seinna atriðið held ég að það sé kannski ekki í okkar höndum að skipta okkur af því hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga setur sínar samþykktir fram. Það er mál þess og ætti kannski ekki að blanda því í stefnumörkun okkar.