150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu þessarar tillögu sem er stór og víðtæk og getur orðið söguleg. Mig langar að drepa aðeins á eitt atriði og skiptast á skoðunum við ráðherra. Það er um það stóra markmið, sem kemur fram í 1. lið í kaflanum um aðgerðaáætlun 2019–2023, að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni. Ég geng út frá því að menn styðjist við meginmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, þ.e. þessi félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu. Mig langar að heyra aðeins vangaveltur um það. Með stærri einingum styrkjast þessi sveitarfélög auðvitað til að veita öfluga samfélagslega þjónustu. Við þekkjum öll þessar væntingar, meðvitund og kröfur um umhverfið. Síðan eru það þessi efnahagslegu atriði varðandi sjálfbærni og aðkomu jöfnunarsjóðs. Hvenær eru samfélög eða sveitarfélög sjálfbær? Er markmiðið að þau verði óháð framlögum jöfnunarsjóðs eða minna háð þeim? Hvar liggja þau mörk sem hæstv. ráðherra finnst ásættanleg í þessu samhengi? Þetta er ein þungamiðjan í tillögunni og kemur bæði fram í 1. lið og síðan í greinargerðinni.