150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:47]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra greið svör. Í kjördæmavikunni ræddi ég við fjölda sveitarstjórnarmanna og skoðanir eru skiptar um þetta. Maður heyrði þau viðhorf að 1.000 manna samfélag væri dæmi um ágætlega sjálfbær samfélög með farsælan rekstur en auðvitað með talsvert mikilli þátttöku jöfnunarsjóðs. Mig langar að spyrja í því sambandi að ákveðið er að gera þetta í tveimur áföngum, árin 2022 og 2026, og mig langar að heyra aðeins nánar um þessi stuttu skref: Væri ekki bara einlægara að gera þetta í einu skrefi? Maður heyrði það líka meðal sveitarstjórnarmanna að þetta væri íþyngjandi fyrir íbúana, að þurfa kannski að skipta um gír á þessu fjögurra ára tímabili.