150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:48]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski gert vegna þess að menn eru að reyna að nálgast málið í eins mikilli sátt og hægt er, hlusta á þau sjónarmið sem hafa verið í þessu langa ferli og vísa ég þá til þeirrar skýrslu þar sem lagt var til 250, 500 og ef ég man rétt síðan 1.000 eða 1.500 á þremur kjörtímabilum. Það má hins vegar ekki túlka þessar tölur sem eitthvað sem sveitarfélögin eiga að horfa til. Þetta er bara lágmark. Ef sveitarfélög á einhverju svæði, tvö, þrjú, eða fjögur, vilja búa til samfélag sem er miklu stærra, af því að þau telja að það sé ákjósanlegast inn í framtíðina, þá geta þau gert það. Ég hef hins vegar engan hitt sem segir að sveitarfélög undir 250 geti verið sjálfbær og staðið undir öllum lögbundnum verkefnum. Og af hverju að teygja þetta fram í sex ár? Jú, það er til þess að gefa sveitarfélögunum færi. Boltinn er hjá þeim. Í Danmörku var þetta gert með eins árs fyrirvara, sett var 20.000 íbúa mark, ef ég man rétt, reyndar með landfræðilegum breytingum sem við getum auðvitað líka horft til í umræðunni, hvort á Íslandi séu einhvers staðar landfræðilegir annmarkar á að ná 1.000. Hér er bara verið að gefa boltann til sveitarfélaganna: Þið hafa mjög langan tíma til að finna út úr því hvaða samfélag þið viljið búa til með því að sameina á sveitarstjórnarstigi.