150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:50]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Þessi þingsályktunartillaga er að mörgu leyti ágæt. Ég verð t.d. að taka undir með hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hrósa þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð af hálfu nefndarinnar við að taka þetta saman. Ég fagna líka sérstaklega markmiðum um samgöngu- og fjarskiptakerfi sem mætir þörfum íbúa, auknu lýðræði og þátttöku íbúa í ákvörðunartöku. Það var ánægjulegt að sjá loksins umfjöllun um stafræn störf án staðsetningar sem eykur möguleika á fjölgun starfa í heimabyggð. Ég sakna þess hins vegar sárlega að sjá ekkert um raforkuöryggi sveitarfélaga sem er stórlega ábótavant og brýnt innviðamál í allt of mörgum sveitarfélögum. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að tryggja ásættanlegt flutnings- og dreifikerfi raforku en það er langur vegur frá að það sé í góðu horfi.

Fyrirætlanir um aukna fjárhagslega sjálfbærni sveitarfélaga og styrking tekjustofna vekja vissulega vonir um að því eilífðarverkefni ljúki farsællega þótt ég stórefist um að þær gangi nógu langt. Samhliða því verkefni ætti ríkisstjórnin að taka til athugunar að lagfæra úrelt landbúnaðarkerfi, óeðlilega fiskveiðistjórn, koma á frjálsum handfæraveiðum og tryggja samgönguúrbætur og fyrrnefnt raforkuöryggi til þess einmitt að styrkja sveitarfélög og gera þau sjálfbær, bæði þegar kemur að blómlegu atvinnulífi og öryggi íbúa.

Það er ómögulegt að fara í djúpa umræðu í einni ræðu um öll þau markmið svo að í dag ætla ég að sérstaklega að tala um ákvæði um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum. Ákvæðið kveður á um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá sveitarstjórnarkosningum árið 2026. Það hefur hvergi verið sýnt fram á að sameining sveitarfélaga hafi leitt til aukinnar hagkvæmni. Það er ekkert samasemmerki þar á milli. Yfirleitt fækkar í yfirstjórn. Bent er á að bæði sveitar- og bæjarstjórum fækki en á hinn bóginn hefur líka komið í ljós að millistjórnendum fjölgar oftast nær sem er ekki tekið til greina.

Sameiningar hafa þó heppnast. Það eru dæmi um mjög vel heppnaða sameiningu sveitarfélaga en þær hafa líka tekist illa og það hefur verið óánægja með þær. Ég tel að í þessu tilfelli verði að hlusta á íbúa og sveitarfélögin sjálf. Mér finnst skjóta skökku við að í áætlun sem á að styrkja sjálfsstjórn sveitarfélaga sé að finna ákvæði sem gengur beinlínis gegn sjálfsstjórn fyrrnefndra sveitarfélaga. Þetta er þvingunarúrræði. Þetta er miðstýring. Það er hreinlega verið að skikka sveitarfélög til þess að sameinast og til þess notuð fjárhagsleg gulrót.

Ég held að tortryggni varðandi sameiningu og ástæða þess að fleiri sveitarfélög hafi ekki sameinast tengist því að sífellt er talað um hagkvæmni og hagræðingar. Það vekur tortryggni hjá íbúum. Ég held að hagkvæmni og hagræðingu sé í fyrsta lagi ruglað saman, þeim tveimur hugtökum, og að þegar talað er um stærðarhagkvæmni eða hagræðingu líti fólk svo á að niðurskurður verði í þjónustu. Það er svo sem ekki að ástæðulausu því að sums staðar hefur orðið niðurskurður í þjónustu í kjölfar sameiningar og þá sérstaklega þegar um er að ræða jaðarsvæði. Við höfum ekki enn náð að efla hverfisráð, sem munu verða nauðsynleg. Við verðum að efla hverfisráðin eða heimastjórn samhliða stærri sveitarfélögum. Þetta er hægt að kalla ýmsum nöfnum. Reykjavíkurborg hefur gert ákveðnar tilraunir með hverfisráð og aukið sjálfstæði og jafnvel fjárhagsvald að einhverju leyti. En það er ekki nógu langt á veg komið til að við getum réttlætt það að knýja á um sameiningar sveitarfélaga. Fyrir mér verður það að vera komið í gott horf.

Ég er ekki aðeins varamaður á þingi heldur líka í ákveðnu sveitarfélagi, ég er því varamaður í fullu starfi. Ég er strax farin að heyra út undan mér að mesta hvatningin í kjölfar þessarar áætlunar og þingsályktunartillögu sem er lögð fram sé að nú hugsi fólks sér til hreyfings til að ná út meira fjármagni í gegnum jöfnunarsjóð, sem á sannarlega að vera gulrótin að frekari sameiningum. Ég held að það sé alltaf best að einblína á að styrkja sveitarfélög og styrkleikana frekar en að tala sífellt um stærðarhagkvæmni og hagræðingu.

Það hafa komið í ljós stórir gallar á byggðasamlögunum. Þau eru ekki lýðræðisleg, það þyrfti að taka gagnsæissjónarmiðið til greina við stjórn þeirra og annað. En ég vil nefna að það eru ekki einungis minni sveitarfélögin sem starfa í byggðasamlögum. Ég vil benda á að sveitarfélög sem hafa lent inni á borði sveitarstjórnarráðuneytisins vegna fjárhagsmála, sem hafa ekki verið í nógu góðu horfi, hafa ekki verið minni sveitarfélögin heldur þau sem eru meðal allra stærstu sveitarfélaga landsins.

Ég vil að þetta sé allt skoðað. Mér er mjög illa við miðstýringu. Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvörðunartöku sem varðar þá sérstaklega og þetta varðar svo sannarlega íbúa allra sveitarfélaga. Ég tel mig líka vera í því hlutverki að tryggja rétt þeirra valdaminni gagnvart þeim valdameiri. Ég held að stóru sveitarfélögin og Alþingi séu svo sannarlega hinir valdameiri þegar kemur að þeim málum og því stend ég hér og vil tala fyrir minni sveitarfélög sem hafa lýst yfir óánægju með þetta ákvæði. Þetta er valdboð að ofan. Píratar telja að heldur þurfi að draga úr miðstýringu valds á öllum sviðum frekar en að bæta í og auðvitað þarf að efla lýðræði í öllum þeim formum sem bjóðast. Ég held, þrátt fyrir að ég sjái kosti í mörgum liðum áætlunarinnar, að slíkt valdboð að ofan og afskipti af sjálfsstjórn sveitarfélaganna og íbúum þeirra verði ekki til farsældar í samskiptum ríkis og sveitarfélag og voru samskiptin þó nógu stirð fyrir.