150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:59]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra góð svör. Mér er fullkunnugt um lögfræðilega hugtakið sjálfsákvörðunarrétt en það er talað um sjálfsstjórn í þingsályktunartillögunni og ég er að tala um sjálfsstjórn, sem er lýðræðislegt hugtak en ekki lögfræðilegt, bara til þess að ganga úr skugga um að við séum ekki að tala um epli og appelsínur.

Varðandi það að þjónustan batni hefur ekki alltaf verið sýnt fram á það. Í mörgum sveitarfélögum sem hafa verið sameinuð, sérstaklega þar sem það hefur gengið illa, hefur það tengst því að óskin um sameiningu hefur ekki komið frá íbúunum eða að það er stærra sveitarfélagið sem samþykkir en minna samfélagið, sem er þátttakandi í kosningunum, samþykkir ekki, en fjöldinn í stærra samfélaginu ræður úrslitum um þetta

Jaðarbyggðirnar? Það hefur verið umræða um þær og ég held að það sé manna á meðal almennt talið að það séu jaðarbyggðirnar sem verði út undan í þjónustunni. Þjónustan færist oft inn í kjarna nýs sveitarfélags sem er þá yfirleitt þar sem mest þéttbýli er, mestur fjöldinn. Stafrænar lausnir og fjarskiptamál hafa ekki verið í nógu góðu horfi til þess að ekki þurfi að sækja sér þá þjónustu akandi. Netlausnir hafa ekki verið uppi á borðum hingað til, ekki í boði og þeim hefur ekki verið sinnt nægilega vel, hvorki síma- né netþjónustu. Jaðarbyggðirnar hafa þurft að sækja þessa bættu og styrkari þjónustu um lengri veg en áður.