150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að það hefur ekki verið nægilega góðu lagi og þess vegna lögðum við út í ljósleiðaraverkefnið, til þess einmitt að tryggja öllum, ekki síst þeim sem búa í dreifbýlinu, jafn góðan aðgang og best getur orðið almennt séð, alla vega nægjanlegan til þess að vera með eins góðan aðgang að neti og upplýsingum og jafnvel geta sett upp starfsstöðvar og vinnu á sínum stað. Þar erum við náttúrlega komin á allt annan stað. Í ræðu minni benti ég einmitt á leiðir til að skikka sveitarfélögin sjálf til bera svolitla ábyrgð á jaðarsvæðum sínum og sagði að það væri nýjung sem við þyrftum að taka tillit til. Það er vissulega miðstýring, það er ákvörðun af hálfu Alþingis, en það er gert í þágu fólksins í landinu.

Varðandi atriðið sem hv. þingmaður kom inn á, að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru slæm, verð ég að hryggja hv. þingmann með því að á síðustu fjármálaráðstefnu, og reyndar nokkrum síðustu, hefur tónninn í sveitarstjórnarmönnum verið sá að það ástand sé alltaf að batna og sé bara mjög gott. Það má heldur ekki gleyma því að þessa þingsályktunartillögu undirbjuggu fjórir sveitarstjórnarmenn frá ólíkum sveitarstjórnum af öllu landinu. Hún kemur frá sveitarfélögunum, hún var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta eða yfirgnæfandi stuðningi nær allra sem voru á þinginu. Vissulega ekki allra og á sjónarmið hinna hefur líka verið hlustað. Hér er því verið að tala um heildarbreytingu fyrir alla íbúa landsins en ekki að einhverjir íbúar í einu sveitarfélagi geti komið í veg fyrir það. Er það lýðræðislegt þegar við erum að tala um heildarbreytingu þar sem sveitarstjórnarstigið sjálft verði sjálfbærara og öflugra? Ég er til í slíka umræðu. Hvað er lýðræðislegt við það?

En það er líka rétt hjá hv. þingmanni að byggðasamlög eru ekki síður hjá stærri sveitarfélögunum. Það er líka umræða um lýðræðislegan halla innan þeirra.