150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:04]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki alltaf lýðræðislegt að meiri hluti valti yfir minni hluta. Það er mín sannfæring og ég get svarað því hér og nú. Mig langar aðeins að ræða breyttar reglur jöfnunarsjóðsins í kjölfarið, þ.e. gulrótina fyrir því að sameinast. Það er alltaf einblínt á stærðarhagkvæmni og fjárhagslega styrkingu, að sveitarfélögin hafi burði til þess að sinna lögbundnum skyldum sínum. Mig langar til að benda á að ríkisstjórn gæti kannski tekið til skoðunar hvort ríkið hafi burði til að sinna lögbundnum skyldum sínum á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála um allt land. Það gæti verið skoðunarinnar vert hvort íslenska ríkið, á sama hátt og sveitarfélögin, eigi að fara í eins konar byggðasamlag eða formlegt samstarf við Evrópusambandið eða norræn samstarfsríki okkar til þess hreinlega að geta sinnt lögbundnum skyldum sínum vegna þess að ég leyfi mér að halda því fram að rúmlega 300.000 manna ríki sé vart sjálfbært. En ég held að því yrði ekki tekið vel ef lögbundin skylda um lágmarksstærð ríkja kæmi utan frá.