150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:23]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um merka tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og líka um aðgerðaáætlun, sem er hluti af þessari tillögu, fyrir árin 2019–2023, aðgerðaáætlun í 11 atriðum. Tillaga þessi, eins og fram hefur komið, er unnin í víðtæku samráði við ráðuneyti, sveitarfélög og almenning og tekur mið af stefnumörkun í byggðaáætlun og sóknaráætlunum. Framtíðarsýn og meginmarkmiðum er lýst þar sem dregin er upp mynd af Íslandi sem þjóð í fremstu röð með trausta og örugga innviði, með öflugum sveitarfélögum, verðmætasköpun og framsækinni þjónustu. Tækni tengir byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið. Sannarlega er kröftuglega til orða tekið, kjarnyrtur texti og markmiðin háleit og á því þurfum við að halda.

Frá því að efni þessarar tillögu varð opinbert hefur hún fengið líflega umfjöllun, einkum þó og sér í lagi meðal hagsmunaaðila, m.a. sveitarstjórnarmanna. Eins og gengur um stór mál og oft góð eru skiptar skoðanir. Á hinum formlega vettvangi samtaka sveitarstjórna hafa tillögur ráðherra fengið fremur jákvæðar viðtökur og umræðan hefur þróast og fundið sér uppbyggilegri farveg en kannski oft áður, eins og fram hefur komið í umræðum að framan. Það sem hefur verið fyrirferðarmest og skekið margan er það sem kemur strax í 1. lið í aðgerðaáætlun um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, stærð þeirra og tímasetningar í sameiningarferlinu, en þar er lagt til að breytingarnar komi til framkvæmda í tveimur áföngum á árunum 2020–2026. Þetta eru eldfim og viðkvæm atriði, bæði nú og í sögulegu ljósi því að þreifingar á sveitarstjórnarstiginu eru aldeilis ekki nein nýjung, fækkun sveitarfélaga, efling þeirra og stækkun. Það er raunar fróðlegt að líta stuttlega um öxl á þessum tímamótum. Virðulegur forseti, er það ekki framtíðin sem skiptir öllu máli þegar litið er um öxl? Þessu verður ekki svarað öðruvísi en að vitna í skáldið, með leyfi forseta:

Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,

án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.

Hugmyndum um sameiningu sveitarfélaga var raunar fyrst hreyft í opinberri umræðu á sveitarstjórnarstigi árið 1943 með grein í tímaritinu Sveitarstjórnarmál. Það var síðan 1948 að tveir þingmenn lögðu fram þingsályktunartillögu um stjórnun stærri kauptúna og að bregðast þyrfti við hraðri þéttbýlisþróun með ýmislegum faglegum úrræðum, styrkari samfélagslegri þjónustu, m.a. á velferðarsviðinu. Það var svo 1952 að fulltrúaráð Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti einróma tillögu um að leggja til við ráðherra að skipaði nefnd sem gerði úttekt á nauðsyn þess að sveitarfélög sem hefðu færri en 500 íbúa sameinuðust, að því tilskildu að landfræðilegar aðstæður hömluðu ekki. Fátt gerðist þó stórtíðinda af sameiningum um sinn en fulltrúar minni sveitarfélaga létu strax í ljós ótta um að hætta væri á að hagsmunir minnstu sveitarfélaganna yrðu undir við sameiningar af þessu tagi. En þarna, árið 1952, var miðað við 500 íbúa lágmark.

Undirbúningur að nýjum sveitarstjórnarlögum hófst 1958 og þau tóku gildi 1961. Í þeim voru svo sem engar breytingar á sveitarfélagaskipan í landinu en aftur kom fram tillaga 1963 um fækkun og stækkun sveitarfélaga. Tillögunni var vel tekið á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga en hún fékk ekki frekari framgang. Það er svo sem kannski rauði þráðurinn í gegnum þetta umræðuferlið allt saman. Menn taka þessu giska vel en þegar farið er að ræða út í hörgul í samfélögunum hika menn. Leið nú og beið og árið 1966 skipaði þáverandi ráðherra félagsmála níu manna nefnd sem gera átti tillögur um hvernig best væri að standa að því að sameina lítil sveitarfélög og líka að gera úttekt á sýsluskipan í landinu. Menn skiluðu stórri skýrslu og nefndin lagði til róttækar breytingar, að fækka sveitarfélögum úr 220 í 66. Tillagan fékk mikla umfjöllun en lítinn framgang. Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi 1986 eftir nærri áratugs aðdraganda og þeim var ætlað að taka á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en sameiningarmálin voru svo sem ekki framarlega. Á þeim tíma, árið 1986, voru þó sett fram í fyrsta sinn þvingunarákvæði, þ.e. 50 íbúar lágmark í hverju sveitarfélagi en þá voru sveitarfélög undir þessu íbúafjöldamarki í kringum 16.

Árið 1991 skipaði félagsmálaráðherra starfshóp sem átti að skila samræmdum tillögum um æskilega skiptingu landsins í sveitarfélög, eins og það hét. Sá starfshópur vann hratt, kláraði fyrir árslok og snemma árs 1993 lágu fyrir tilbúnar tillögur um að sameina 185 sveitarfélög í 32. Boðað var til kosninga í árslokin en því miður var aðeins ein tillaga af þessum 32 samþykkt í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum. Það var auðvitað langt undir væntingum en boltinn var farinn að rúlla og sameiningar urðu nokkrar í kjölfarið. Í sveitarstjórnarkosningum 1994 hafði sveitarfélögum í landinu t.d. fækkað úr 196 í 171 og enn frekar fjórum árum síðar. Þá hafði þeim fækkað um 47 til viðbótar. Sameiningarmál sveitarfélaga fengu svo aftur byr árið 2003 en hugur ráðherra stóð til að styrkja og efla sveitarstjórnarstigið. Það hefur staðið upp úr allt þetta tímabil. Það var kosið 2005 í 66 sveitarfélögum um 17 sameiningartillögur en lítið gekk. Það urðu aðeins til þrjú ný sveitarfélög úr þessu.

Herra forseti. Það er kannski fullmikið sagt að dúnalogn hafi síðan dottið á í sameiningarumræðunni en reyndin er samt sú að eftir þetta hefur lítið gerst og lítið verið aðhafst þar til nú í sameiningum sveitarfélaga með formlegum hætti eða að tilstuðlan hins opinbera eða stjórnvalda. Þingmenn Samfylkingarinnar lögðu reyndar fram frumvarp þessa efnis veturinn 2006/2007 þar sem gert var ráð fyrir 1.000 íbúa lágmarki. Ný sveitarstjórnarlög voru samþykkt 2009. Þar er lítið fjallað um sameiningar og í þeim lögum er raunar ákvæðið um 50 íbúalágmark frá 1986 fellt út.

Herra forseti. Ég hef farið á handahlaupum yfir nokkur atriði sem tengjast sögu sameiningarmála og það er ágætt að hafa hana til hliðsjónar í umræðunni. Þessi saga er orðin býsna löng og þráðurinn viðburðaríkur og við erum enn í miðjum klíðum. Það verður spennandi að sjá hvort okkur tekst að ná árangri. Ég hef orðið þess áskynja eftir heimsóknir og fundi í kjördæminu í liðinni viku, kjördæmavikunni, að skoðanir meðal sveitarstjórnarmanna eru með öllu móti. Það sem þó gengur í gegn sem rauður þráður er jákvæðni gagnvart því að skoða tillögurnar vel, loka ekki neinum dyrum, en bilið á milli manna er talsvert breitt. Þetta er saga sameiningartilrauna á Íslandi. Það mátti auðvitað heyra ýmisleg sjónarmið um að ekki væri eðlilegt að skikka sveitarfélög með stífri skipan til að sameinast og þá eru menn að hugsa um fjöldamörkin, 250 og 1.000. Það mátti líka heyra þær raddir um það að ótækt væri að kjósa tvisvar, 2022 og 2006. Það væri eins gott að stíga skrefið til fulls. Svo mátti líka heyra skoðanir um að það væri rétt að sameina miklu stærra og gjarnan að miða við 5.000–6.000 íbúa og samstarf á sviði málefna fatlaðra var nefnt í því sambandi.

Virðulegur forseti. Það var nokkuð ofarlega í huga fulltrúa flestra sveitarfélaganna í mínu kjördæmi sem ég ræddi við að þeir höfðu miklar efasemdir um valdboð í þeim efnum. Lagaboð ætti ekki við, það væri eðlilegt að gefa heimamönnum svigrúm til að fjalla um þau mál. En það er vert að gefa því gaum í lokin (Forseti hringir.) hver afstaða jafnaðarmanna hefur verið í áranna rás en þeir hafa komið að sveitarstjórnarmálum á lýðveldistímanum og markað þar spor, bæði á sveitarstjórnarstigi og á landsvísu. (Forseti hringir.) Hannibal Valdimarsson 1958, Eggert G. Þorsteinsson 1956 og Jóhanna Sigurðardóttir 1991.

Virðulegur forseti. Ég hef þessi orð ekki lengri. Ég er farinn að tala á rauðu ljósi og það er ekki til fyrirmyndar.