150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið unnið að gerð stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga. Það hefur verið gert og nú liggur þessi tillaga fyrir. Hún gengur í meginatriðum í þá átt að fækka sveitarfélögum svo eftir standi stærri og öflugri samfélög sem gætu tekist betur á við skyldur sínar hvað varðar þjónustu og mætt þannig betur þörfum samfélagsins. Mikilvægt er fyrir íbúa að stjórnsýsla sé öflug og skilvirk. Þannig næst fram lýðræðislegur vettvangur og réttur íbúa er betur tryggður. Hér er verið að horfa í átt að breytingum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði. Í tillögunni eru lagðar til 11 aðgerðir sem ætlað er að ná þeim markmiðum. Þar má finna tillögu um stóraukinn stuðning í gegnum jöfnunarsjóð vegna sameiningar sveitarfélaga. Unnin verði greinargerð um núverandi tekjustofnakerfi og gerð grein fyrir tekjustofnum sem gætu færst á milli ríkis og sveitarfélaga — og ég held að þetta sé kannski stærsta áskorunin; ef mikið verður um sameiningar standa eftir fá en stór sveitarfélög. Hér er nefnt t.d. gistináttagjald. Ég held að við þurfum að vera miklu öflugri og horfa til fleiri tekjustofna, t.d. fjármagnstekjuskatts og veiðigjalda. Við þurfum svolítið að stokka þetta upp til að ná fram þeirri hugsun. Jöfnunarsjóðurinn verður ekki endilega alltaf sá sterkasti sem hægt er að leita í. Ég held að til að fara sem best í átt að sjálfbærni sé þessi liður sá öflugasti.

En það eru líka kröfur um að lækka skuldaviðmið sveitarfélaga og skoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ljóst er að heildarmarkmið stefnu stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga eru sett út frá núverandi stöðu og hlutverki sveitarfélaga. Þjónustuhlutverk sveitarfélaga hefur aukist og þau hafa tekið að sér fleiri verkefni frá ríkinu, nú síðast þegar sveitarfélögin tóku að sér málefni fatlaðra. Þar hafa fámenn sveitarfélög haft samvinnu um verkefni og hefur það gengið ágætlega að flestu leyti. Auk stærri verkefna hafa kröfur um öflugri og skilvirkari stjórnsýslu aukist. Þá hafa ný lög eins og persónuverndarlög verið íþyngjandi fyrir litla stjórnsýslu. Lítil sveitarfélög eiga sífellt örðugra með að standa undir þeim lögbundnu verkefnum sem þau skulu inna af hendi þrátt fyrir að einstaklingar séu jafn öflugir hvort sem þeir búa í 50 manna sveitarfélagi eða 50 þúsund. Mörg minni sveitarfélög hafa risið upp og mótmælt þessum tillögum og hafa þau mótmæli snúið nær einvörðungu að tillögu þess efnis að skylda sveitarfélög til að sameinast og að leiðin sé að setja lög um lágmarksfjölda íbúa. Það er auðvelt að setja sig í stellingar og vera annaðhvort á móti eða fylgjandi þessari leið að sameiningu og fabúlera um hvaða mælikvarða sé best að setja þegar við reynum að taka út sveitarfélögin með tilliti til sjálfbærni. En það er spurning hvort hægt sé að draga fram aðrar mælistikur. Sumir sem hafa mótmælt hafa talað um að verið sé svolítið að nota excel-skjalið, það forrit er ágætt svo langt sem það nær, en þar inni er ein breyta sem heitir „IF-stuðull“. Ef hann er notaður eru mörg „ef“ í þessu sambandi. En það er sjálfsagt að ræða þetta. Ég treysti þeirri þingsályktunartillögu sem liggur hér fyrir og fer nú í þinglega meðferð inn í nefnd til að fjalla vel og ítarlega um málið og kalla öll sjónarmið að borðinu svo að út úr henni komi það leiðarljós sem leiðir til frumvarps í þessu efni.

Mig langar líka til að nefna tilraunaverkefni og hugmyndir hjá fjórum sveitarfélögum fyrir austan. Þau setja sér metnaðarfull markmið og gaman er að fylgjast með því. Hægt er að fara inn á ákveðna heimasíðu til að skoða það umhverfi sem þau sjá fyrir sér. En til að það geti orðið þarf að bæta ýmislegt eins og samgöngur og annað. Við erum líka að horfa til nútímaþátta eins og öflugra fjarskipta í þessu sambandi.

Ég efast ekki um að tillögurnar í þingsályktunartillögunni komi til með að leiða til frjálsra ásta sveitarfélaga um allt land og að þau fari að líta upp og athuga hvar þeim sé best borgið. Það skiptir nefnilega máli því að stjórnsýsla hvers sveitarfélags er hjarta samfélagsins og við verðum að fara varlega í þessu sambandi og taka tillit til margra þátta og ólíkra umgerða. Landslagið er ólíkt og hvert einasta sveitarfélag hefur sína sérstöðu.

Það eru mörg sjónarmið í þessu en besta sameiningin verður alltaf þegar heilbrigð samfélög stefna að einu markmiði og heildarhagsmunirnir eru hafðir að leiðarljósi. Þannig getum við náð fram sterkum sveitarfélögum sem vinna saman og horfa jafnvel víðar: Hvaða augum lítum við umhverfið eftir 2027 þannig að öllu sé best fyrir komið? Ég held að gott sé að þessi tillaga fari í gegnum þingið og öll sjónarmið komi upp á borðið og verði rædd eins og við erum vön að gera.