150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[13:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Til að byrja með vil ég segja að þetta er fínasta þingsályktunartillaga. Mér líst mjög vel á mjög mörg atriði í henni og sérstaklega á meginmarkmiðið, áhersluna á sjálfbærar byggðir og sveitarfélög um land allt. Það eru aðallega tvö atriði sem mig langar að koma inn á sem tengjast bæði grunnstefnu og öðrum stefnum Pírata, annars vegar er lýðræðisleg þátttaka íbúa og lýðræðisleg styrking sveitarfélaga og hins vegar eru tekjustofnarnir. Þetta eru tvö mjög mikilvæg mál, hvort á sinn hátt, en bæði snúa að ákveðinni sjálfbærni. Í áherslum til að ná markmiðinu um sjálfbærni segir að tryggja beri fjárhagslega og rekstrarlega getu einstakra sveitarfélaga til að standa til lengri tíma undir lögbundinni þjónustu við íbúana. Það hefur verið samhljómur um það á öllum fundum þegar ég hef spurt Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök og einstök sveitarfélög út í tekjustofnana að þeir dugi einfaldlega ekki til að standa undir þeim verkefnum sem sveitarfélögin hafa á sínum snærum. Enginn hefur mótmælt því. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni að klára.

Þriðja atriðið í aðgerðaáætlun 2019–2023 er um tekjustofna sveitarfélaga. Ég er ekki viss um að aðgerðirnar þar dugi. Verkefnismarkmiðið er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Sveitarfélag þarf náttúrlega fyrst að ná fjárhagslegri sjálfbærni áður en hún er aukin. Í stefnu Pírata er t.d. ákveðinn hvati til vissrar tegundar af atvinnustarfsemi innan sveitarfélaga, til uppbyggingar ákveðinnar tegundar af atvinnustarfsemi. Þar er um að ræða atvinnustarfsemi sem er mannfrek og fermetrafrek, þ.e. atvinnustarfsemi sem getur skilað útsvari af tekjum einstaklinga og sem getur skilað fasteignagjöldum. Þetta tvennt hvetur til ákveðinnar tegundar af atvinnustarfsemi sem er mjög lítill hluti af atvinnustarfsemi í landinu öllu. Ef við gæfum sveitarfélögum frjálsari hendur í því hvers konar tekjustofna þau hafa til að höndla með gæti verið hægt að byggja upp allt öðruvísi atvinnustarfsemi í sveitarfélögum víðs vegar um landið. Segjum sem svo að sveitarfélög væru með útsvar af fyrirtækjaskatti eða jafnvel útsvarshluta af virðisaukaskatti. Það gæti gert það að verkum að ferðamennirnir sem eru á leið í gegnum sveitarfélögin og kaupa mjólk úti í búð, kaupa gistingu og ýmislegt annað skildu eftir eitthvað af veru sinni þar. Eins og segir hér verður gistináttagjaldið fært til sveitarfélaga en það væri kannski nóg ef það væri bara hluti af virðisaukaskattinum. Hver veit? Það sem gerist, þegar fólk tekur þátt í hinu daglega lífi, verslar í búðum og tekur þátt í ýmissi annars konar nýsköpun sem er ekki endilega með marga fermetra undir sér eða margt starfsfólk sem skilar tekjum, er að sjálfstæðir atvinnurekendur sem slíkir, sem eru bara með sín fyrirtæki og borga sér lágmarkslaun, eins og hefur þekkst í gegnum tíðina, og borga ekki mikið til sveitarfélagsins færu allt í einu að gera það á miklu víðtækari hátt. Ég held því að það séu tvímælalaust mjög mörg tækifæri þarna hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna og ákveðna hvata til þess að gefa sveitarfélögunum tæki til að byggja upp miklu fjölbreyttari atvinnustarfsemi en nú þekkist þannig að íbúar njóti góðs af.

Hinn punkturinn er um að styrkja lýðræðislega þátttöku íbúa. Þá myndi ég vilja beina sjónum mínum að Reykjavíkurborg þar sem mjög mikið hefur verið gert hvað það varðar. Ég efast ekki um að þau þar myndu hjálpa til með þá vinnu því að menn segja að vinnan sem hefur verið unnin þar sé beinlínis í fremstu röð í heiminum.

Það er eitt í viðbót sem mér finnst áhugavert við þessa tillögu, það að gerð var úttekt á hagrænum áhrifum gangi þær breytingar eftir á sameiningu sveitarfélaganna að það yrðu 1.000 íbúar, þ.e. stækkun smærri sveitarfélaganna. Hagrænu áhrifin eru metin á bilinu 3,6–5 milljarðar eftir því hvaða greiningaraðferð var notuð. Mér fannst þær greiningar sem ég skoðaði mjög vel gerðar sem segir mér að við kunnum að gera kostnaðarmat og ábyrgðargreiningar þó að við fáum kannski einhverja utanaðkomandi aðila til að gera það. Í þessu tilfelli tóku tveir sérfræðingar sér mánuð í að gera greiningarnar og skiluðu af sér mjög góðri vinnu. Mig langar pínulítið að tengja það við fjárlagagerðina því að ég er sífellt að kvarta undan því að þar vanti nákvæmlega það sem er gert í þessu þingmáli. Ég segi því: Til hamingju, lærdómsferlinu er lokið. Ég myndi vilja sjá þetta á fleiri stöðum.

Ég hlakka til að sjá verkefnin komast í gang og sjá þessi metnaðarfullu markmið nást. Ég hlakka líka til að sjá hvað það kostar því að það er ekki alveg útskýrt hvað hvert atriði kostar, sem ætti að sjálfsögðu að gera. Ég ætla að leyfa mér að vera með smáefasemdir um tímamörk og því um líkt af því að það vantar krónutölurnar á bak við verkefnin. Ef þetta stenst er það frábært því að tillögurnar eru góðar að mestu leyti.