150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

landlæknir og lýðheilsa.

62. mál
[13:51]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu. Breytingin sem ég mæli fyrir snýr að 8. gr. laganna, þ.e. skráningarskyldu heilabilunarsjúkdóma. Breytingin eins og hún kemur fram í frumvarpinu lætur til þess að gera lítið yfir sér en varðar hins vegar býsna stóran og mikilvægan sjúkdómaflokk sem hingað til hefur ekki fallið undir þau skráningarskilyrði sem gert er ráð fyrir í 8. gr. Þar eru til að mynda einnig hjarta- og æðasjúkdómar, sykursýki og taugasjúkdómar.

Þetta frumvarp var áður lagt fram á 149. löggjafarþingi en var þá ekki rætt og er því lagt fram óbreytt. Við erum að tala um býsna algengt vandamál, þ.e. heilabilanir yfirleitt. Þær skiptast gróft á litið í ansi marga sjúkdóma en langstærstu sjúkdómarnir eru þrír til fjórir, þ.e. alzheimersjúkdómurinn sem er langalgengastur af þessum sjúkdómum, æðavitglöp sem eru í 2. sæti, blandaður sjúkdómur tveggja fyrrnefndra, og síðan koma aðrir sjúkdómar eins og Lewy-sjúkdómur, framheilabilun og alkóhóltengd heilabilun. Talið er að það geti verið einhvers staðar á bilinu 3.000–4.000 manns á Íslandi með alzheimersjúkdóm og þá gæti heildarfjöldi þeirra sem eru með heilabilun á hverjum tíma verið á bilinu 4.000–5.000 manns.

Það er lagt til að heilabilun verði bætt við þennan lista og þannig farið að skrá sérstaklega þegar slíkir sjúkdómar eru greindir svo halda megi betur utan um þá. Þetta er mjög mikilsvert, til að mynda í rannsóknartilgangi, til að tryggja að hægt sé að fylgjast almennilega með hvað um er að vera í þróun þessara sjúkdóma. Þetta er sérlega mikilvægt þegar við veltum fyrir okkur að þarna undir eru sjúkdómar sem í fæstum tilvikum er til nein þekkt meðferð við. Því er afar mikilsvert að vita stærð vandamálsins á hverjum tíma. Mjög stór hluti þeirra sem fær heilabilanir á Íslandi endar ævi sína á hjúkrunarheimilum, sem betur fer ekki allir en samt eru það margir. Því má segja að sá fjöldi sem á hverjum tíma er með heilabilunarsjúkdóm segi okkur nokkuð til um það hver megi ætla að verði ásóknin á hjúkrunarheimilin. Þess vegna er mikilvægt að hafa þetta í huga.

Samfélagið verður fyrir gríðarlegum kostnaði vegna heilabilunarsjúkdóma yfirleitt og talið er að í kringum 300 Íslendingar greinist á hverju ári með heilabilun, 1,5–2% þjóðarinnar á hverjum tíma eins og ég sagði áðan, 5% þeirra sem eru 65 ára og eldri og með hækkandi aldri þjóðarinnar má gera ráð fyrir að sá hópur stækki sem er með þessa sjúkdóma. Kostnaður samfélagsins er ekki eingöngu kostnaður hins opinbera heldur líka kostnaður einstaklinga og fjölskyldna sem þarna eiga hlut að máli.

Í fylgiskjali með frumvarpinu er farið ítarlegar ofan í alzheimersjúkdóminn og þá tegund heilabilunar sem hann er. Þar er grein eftir Steinunni Þórðardóttur lækni sem er sérfræðingur í öldrunarlækningum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Ég hvet þingmenn eindregið til að lesa þá grein því að þar eru ýmsir fróðleiksmolar sem geta skipt miklu máli, m.a. þættir sem geta haft áhrif á tilurð sjúkdómsins og hvort menn fá hann eða ekki. Það eru m.a. lífsstílsþættir, þ.e. hinir níu þættir sem eru taldir upp í grein Steinunnar þar sem hún vitnar í læknatímaritið Lancet frá 2017. Þar er talið að af öllum tilvikum geti um 30% skýrst af lífsstílsþáttum einvörðungu. Það er býsna athyglisvert ef maður hugsar út í það að auðvitað líta flestir læknar á alzheimersjúkdóm sem vefjafræðilega breytingu. Þá velta menn fyrir sér hvernig vefjafræðileg breyting geti orðið af völdum þátta eins og lágs menntunarstigs. Engu að síður hafa menn getað sýnt fram á þetta og það er athyglisvert. Með því að samfélagið geri sér grein fyrir stærð vandamálsins mun það auðvelda bæði rannsakendum og ekki síður hinu opinbera að útvega fé til rannsókna á verkefnunum, útvega fjármuni til að vinna á móti þessum lífsstílstengdu þáttum sem skipta ekki svo litlu máli. Því er mikilvægt að þetta sé skoðað og þessu komið inn í íslenska löggjöf.

Ég vil að lokum nefna að það er mjög ánægjulegt hversu margir þingmenn eru meðflutningsmenn á þessu frumvarpi, 12 þingmenn. Ég efast svo sem ekki um að margir fleiri hefðu viljað vera með hefði verið leitað eftir því. Ég ætla að láta þetta gott heita að svo stöddu, herra forseti, og hlakka til umræðunnar en hlakka sérstaklega til að hv. velferðarnefnd taki þetta mál fyrir, afgreiði það og klári þannig að við getum þá gert þessa breytingu á íslenskum lögum þessum sjúklingahópi til heilla.