150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:31]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili áhyggjum með hv. flutningsmanni af úrgangsmálum á Íslandi. Úrgangsmeðhöndlun er ekki í nógu góðu lagi. Við horfum til þess að smíða landsskipulag þar sem tekið er föstum tökum á þessu öllu. Það er ekki það ólíkt milli sveitarfélaga. Það sem við köllum venjulega úrgangsmeðhöndlun er ansi samþætt ferli. Við erum að tala um flokkun og endurnýtingu og endurnýting getur að hluta til verið hér. Að hluta til er hún erlendis, málmar og spilliefni. Við erum að tala um urðun og við hæstv. flutningsmaður erum sammála um að það þurfi að skera hana mjög mikið niður þannig að hún verði raunverulega aðeins viðhöfð þegar um óvirkan úrgang er að ræða. Síðan er það brennslan sem ég ætla að koma hér að. Hún er nú á því formi að það er — og verður — fyrst og fremst verið að brenna úrgangi frá spítölum og öðru slíku. Útflutningurinn sem nú fer fram og mun fara fram snýst fyrst og fremst um neyðarlausn vegna þess að ekki er hægt að vinna þessi efni eða urða þau með skikkanlegum hætti. Ég er alfarið á móti því að verið sé að flytja út sorp til brennslu til lengri tíma litið en sem neyðarlausn get ég alveg tekið undir það.

Þá að hátæknibrennslu. Hún er auðvitað framför þegar um sorpbrennslu að ræða, svona almennt séð í sögulegu samhengi, en hún er ekki fyllilega umhverfisvæn. Hún losar koldíoxíð. Hún losar minna af eiturefnum en áður var. Askan frá henni er hættuleg og þarf að flytja hana út og síðan ekki síst snýr hreinsunin sem er til staðar fyrst og fremst að svifryki. Þetta er ágætislausn víða, sérstaklega á köldum svæðum í útlöndum, en hér á landi eru til aðrar lausnir. Þá bendi ég t.d. á nýju varmadæluna í Vestmannaeyjum. Þess vegna er spurning mín svona: Af hverju að leggja áherslu á hátæknibrennslu af þessari stærðargráðu hér á landi (Forseti hringir.) þegar aðrar og umhverfisvænni lausnir eru kleifar?