150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni kærlega fyrir þetta andsvar. Hann spyr í raun einnar spurningar: Af hverju að leggja áherslu á þetta? Því er fljótsvarað, herra forseti. Hér er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að kanna hagkvæmni við rekstur slíkra stöðva. Þetta er ekki tillaga um að reisa svona stöð. Það er verið að kanna hagkvæmni þess. Það hefur vantað lausnir í þessum málum hérlendis. Ég veit vel af því að verið er að vinna skýrslu í ráðuneytinu. Hún er ekki komin fyrir okkar sjónir, það er verið að vinna að henni. Auðvitað óska ég þess að þar verði búið að taka á þessu máli en þetta er til að ýta á eftir því og að það verði kannað ofan í kjölinn hvort þetta borgi sig.

Við getum ekki, herra forseti, verið þekkt fyrir það að safna svona upp sorpi eins og við höfum gert. Hátt í 250.000 tonn af úrgangi eru urðuð hér árlega. Eigum við að flytja það sem ekki er hægt að flokka og endurnýta — sem verður alltaf töluvert magn — úr landi til brennslu? Eigum við að gera það? Borgar það sig með öllum þeim útblæstri skipa sem fylgir á þeirri leið og með útblæstri bifreiða til að aka því að skipshlið og frá skipshlið erlendis? Er það lausnin, að flytja kannski 100.000–150.000 tonn úr landi til brennslu? Er það lausnin? Ég sé ekki að það geti verið hagkvæmara en umfram allt þarf að gera þessa könnun, skoða þetta. Hvað mun þetta kosta? Er hægt að reka þetta? Hugsanlegt er að reka þetta á einhverjum köldum svæðum eins og t.d. á Vestfjörðum, eins og hugmyndir hafa komið upp um, ekki frá mér heldur frá öðrum aðilum.