150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:40]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Karl Gauti Hjaltason. Ég vil byrja á að þakka honum fyrir það frumkvæði sem hann sýnir með því að flytja tillögu um að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að kanna hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð. Ég held að það sé vonum seinna að við Íslendingar förum að verða sjálfbærir í því að eyða okkar eigin sorpi. Það gengur ekki að við séum að flytja út sorp og höfum engar lausnir hér innan lands.

Ég ætla ekki að rekja allar þær góðu tillögur og þá stöðu sem hv. þingmaður rakti áðan en ítreka að í síðustu kjördæmaviku, þegar við hv. þingmenn sem höfum tekið til máls fórum um kjördæmi okkar, brunnu þessi mál mest allra á öllum sveitarstjórnum, að leysa þau mál sem snúa að sorpbrennslu eða losun úrgangs. Urðun sorps er náttúrlega ofarlega á baugi eins og hér hefur komið fram og við þurfum að finna leiðir sem fyrst til að verða sjálfbær. Það vill þannig til að þegar þessi tillaga kemur fram hef ég verið að skoða hvort rétt sé að taka upp strandsiglingar að nýju við Ísland á vegum einkaaðila eða ríkis og sveitarfélaga. Einn af þeim kostum sem er til skoðunar þar er flutningur á sorpi í kringum landið þar sem safnað væri saman sorpi og öðrum þurrflutningi sem ekki þarf að flytja hratt. Það myndi létta álagi af vegum. Slík tillaga er kjörin til þess að skoða með þeirri hugmynd sem hér er borin fram. Það er þess vegna sem ég styð þessa tillögu heils hugar. Það er mikilvægt að Íslendingar stígi skref í þá átt að endurvinna sem mest af sorpi. Það er líka grundvöllur að þessu öllu saman, eins og hér hefur komið fram. Trúlega er rekstrargrundvöllur slíkrar sorpbrennslustöðvar endurvinnslan og það sem hægt er að selja frá, bæði hiti og rafmagn. Þess vegna horfa menn til þess að slík brennsla yrði á köldum svæðum.

Ég ítreka þakklæti mitt til framsögumanns þessarar þingsályktunartillögu og vona að hún fari til nefndar og þar verði tekið á henni og ráðherrar skoði þessi mál, eins og hér er bent á. Ég vona að við fáum svör við þessu sem fyrst svo að Íslendingar geti hætt að horfa í gaupnir sér og orðið stoltir af því hvernig ætlunin er að standa að þessum málum í framtíðinni.