150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að þakka málshefjanda og framsögumanni þessarar þingsályktunartillögu, Karli Gauta Hjaltasyni, fyrir að koma með þetta mál um byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar. Það hefur komið fram í ræðum að það er stórt vandamál hvernig við stöndum að sorpmálum á Íslandi og hefur verið ansi lengi. Það eru nánast daglega í sjónvarpi og útvarpi og í fjölmiðlum auglýsingar: Hættum að urða, göngum betur um, hysjum upp um okkur í þessum málum. Þannig að mér finnst það skref sem stigið er með því að leggja þetta fram mjög til fyrirmyndar.

Það er stór urðunarstöð vestur á Mýrum í Hraunhreppi, í Fíflholti þar sem Sorpa á Vesturlandi er. Þangað er sorpið keyrt og það urðað. Ég man vel eftir því að þetta var mikið deilumál á sínum tíma en var samt sem áður framkvæmt. Þangað er ekið miklu magni af sorpi og þá man ég einmitt eftir því, sem nú er verið að tala um að sé tilfellið, að mengun af þessu gæti borist fram í grunnvatn, jafnvel neysluvatn. Svo er líka það að sorp sem er urðað er ekkert horfið, það er svipað og að sópa því undir teppið. Þegar ég var ungur var sorpinu sturtað fram af klettum og kveikt í. En það gengur ekki lengur. Það er ekki boðlegt í dag. Settar hafa verið upp brennslustöðvar sem gengu ekki nógu vel og þær menguðu en nú er komin það mikil tækni að hægt er að — ég segi nú ekki alveg eyða allri mengun, eins og hefur komið fram, en samt sem áður er hún orðin hverfandi.

Að sigla með sorp úr landi er náttúrlega næsti bær við að sópa því undir teppið. Það er að setja það í garðinn hjá næsta manni, alls ekki til fyrirmyndar. Minnst var á strandsiglingar með sorp, ef við myndum axla okkar ábyrgð í þessu og sjá um að eyða sorpinu sjálf. Það er náttúrlega mikið álag á vegum þegar stórir „treilerar“ keyra hringinn í kringum landið. Það hefur mikið aukist vegna þess að strandsiglingar, eins og þær voru á vegum ríkisins, lögðust af fyrir nokkrum árum vegna þess að þær báru sig ekki og var ákveðið að hætta þeim. En ég hef einmitt oft minnst á það í ræðustól að margar vörur sem þarf ekki að flytja á einum degi frá A til B myndi örugglega borga sig að flytja sjóleiðis hér við strendur Íslands og sorp er alveg örugglega þar á meðal. Það rennur ekki svo glatt út á tíma. Þannig að ég styð glaður þessa þingsályktunartillögu, enda er ég einn af flutningsmönnum. Ég vænti þess að þingheimur styðji þetta til að hægt sé að fara að gera eitthvað í sorpmálum sem er alvöruaðgerð en ekki bara, eins og ég sagði áðan, að sópa undir teppið.

Frekari flokkun er náttúrlega eitthvað sem mætti stórlaga, og ég tek alveg undir það, eins og kom fram í ræðu hjá hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni. Það er virkilega illa að því staðið á mörgum stöðum. Til gamans má geta þess að vestur í Stykkishólmi byrjaði flokkun sorps fyrir nokkuð mörgum árum og gengur mjög vel. Þetta er komið á mörgum stöðum á landinu. En flokkunarmál sorps virðast ansi aftarlega á merinni hér á Reykjavíkursvæðinu og er það svolítið bagalegt í höfuðborg landsins. Frekari flokkun sorps er nokkuð sem þarf líka að ganga í og þessi tillaga er skref í átt að því að taka alvarlega á þessum málum, fara að gera alvöruátak í sorpmálum hér á Íslandi.