150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Opinber umræða um umhverfismál á Íslandi er að miklu leyti sýndarmennska og sjónarspil. Það sést kannski best á því hversu margir sem gefa sig út fyrir að vera umhverfissinnar eru við þessa umræðu nú, umræðu þar sem lögð er til athugun sem gæti, ef hún kemur vel út, leyst mjög stórt vandamál við meðferð úrgangs á Íslandi. Hvar eru umhverfissinnarnir núna? Hvar eru þeir? Af hverju eru þeir ekki við þessa umræðu? Það var reyndar einn hér áðan, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson. Mér þykir leitt að hann er ekki hér til að heyra mig tala af því að honum fannst sjálfsagðara að flytja draslið okkar úr landi og henda því í aðra en að brenna því hér heima, því að af brennslunni er útblástur. En það er líka útblástur frá skipunum sem við notum til að koma ruslinu okkar í garð nágrannans, og ekki minni. Við ættum kannski að kanna hvort losar meira, skipakosturinn sem færir ruslið úr landi eða hugsanleg sorpbrennsla.

Svo vill til að á sínum tíma, í mínu fyrra lífi, var ég að vinna í umhverfisráðuneytinu þegar tvær sorpbrennslustöðvar á Íslandi voru lagðar af. Önnur var í Vestmannaeyjum, hin var í Skaftárhreppi. Þetta var vegna þess — og ég geri ekki lítið úr því — að díoxínmengun kom í ljós frá báðum þessum brennslum. Menn höfðu áhyggjur af því að í Vestmannaeyjum myndi reykinn slá niður í bæinn í logninu. Menn höfðu líka áhyggjur af því að díoxín myndi leita í matvæli í Skaftárhreppi. Mér er kunnugt um að þáverandi sveitarstjórnaryfirvöld í Skaftárhreppi létu kanna málið í þaula og leita að díoxíni úti um allt — í grasi, í búfjárafurðum, í brjóstamjólk kvenna. Það var hvergi arða af díoxíni. Brennslan var lögð af. Hvað var gert? Það var sameinast um að urða. Það er stundum eins og við Íslendingar höldum að ef við gröfum eitthvert vandamál þá hverfi það. En það er samt til staðar. Þeir í Skaftárhreppnum komu sér saman með nágrönnum sínum, á Hvolsvelli og í Vík, um að keyra ruslið dágóðan spöl og grafa í sand. Þar hvarf það náttúrlega sjónum en það er þarna samt.

Það sem ég sagði áðan, að umræða um umhverfismál á Íslandi væri sjónarspil og sýndarmennska, sést kannski best á því að við erum núna, meðan við urðum 250.000 tonn af sorpi á ári, að banna plastpoka — sem eru 1% af sorpi sem til fellur á landinu, ef ég man rétt. Stjórnvöld andskotast á einkabílnum, sem mengar kannski 3–4%, en við komum okkur ekki saman um hver eigi að sjá til þess að skemmtiferðaskip, sem brenna svartolíu nota bene, séu tengd við rafmagn úr landi þegar þau liggja við bryggju á Íslandi. Við komum okkur ekki saman um það og þess vegna er það ekki gert. Við horfum á litlu vandamálin og við horfum á mál sem er hægt að leysa þannig að það líti vel út í fjölmiðlum en stórum vandamálum horfum við fram hjá. Ég ætla ekki að minnast á frárennslismál sem eru víða á landinu til svo mikils ósóma og skammar að hægt væri að halda um það sérstaka umræðu á þinginu og væri brýnt að gera það. En það er ekki mjög líklegt til vinsælda að tala um frárennsli, það þykir frekar subbulegt. En að banna plastpoka er aftur á móti frekar göfugt verkefni.

Ég er hissa á því að ekki skuli fleiri taka þátt í þessari umræðu vegna þess að hér er lagt til að gerð verði hagkvæmniathugun á því hvort við getum með hátækni brennt sorp á Íslandi. Jú, jú, við eigum fullt af heitu vatni og við höfum fullt af rennandi vatni, það er ekki orkuskortur á Íslandi nema að því leyti að ekki er hægt að færa orku um landið út af því að hringtengingin er í rusli en það er annað mál. Gætum við ekki samt sem áður nýtt brennslu á þessum afurðum, þessari vöru? Gætum við ekki nýtt hana til að framleiða rafmagn? Alveg örugglega. Nú ætlum við að fara að framleiða rafmagn í vindmyllum, smávirkjunum. Mér þætti t.d. gaman að sjá hvað kílóvattstund í rafmagni myndi kosta út úr svona hátæknibrennslu, það væri mjög athyglisvert að fá það fram.

En auðvitað þurfum við að taka alla þessa keðju. Keðjan byrjar heima hjá okkur sjálfum. Um leið og við kaupum eitthvað sem við ætlum ekki að nota eða notum ekki og hendum, þá flokkum við það. Það hefur komið fram hér, af því að ég veit að hv. þm. Sigurður Páll Jónsson er búsettur í Stykkishólmi, að það bæjarfélag er til algerrar fyrirmyndar í flokkun sorps og hefur verið örugglega í 15–20 ár, ef ég kann rétt að segja frá. Það er mjög athyglisvert að stærri sveitarfélögin virðast ekki hafa getað tileinkað sér þá gríðarlega miklu flokkun sem er t.d. þar. Það er mjög miður vegna þess að ef það væri gert, t.d. hér á þessu svæði, myndum við náttúrlega minnka magn sorps og auðvitað ber okkur að gera það. En að flytja ruslið okkar til útlanda? Ég meina, við erum sama fólkið og stöndum á öndinni yfir því að Vesturlönd séu að flytja úrgang til þriðja heimsins en okkur finnst allt í lagi að flytja út sorp til Norðurlandanna, til vina okkar, til þess að þeir geti brennt þar sorp. Okkur finnst það alveg sjálfsagt. Ágætur maður sem kom í fréttunum um daginn var stoltur yfir því að sorpið sem hann var að flytja út var notað til rafmagnsframleiðslu í Álaborg eða húshitunar og rafmagnsframleiðslu í Svíþjóð. Hann var mjög stoltur af því. Ef hann hefði sagt okkur að verið væri að framleiða hita fyrir hús í Vestmannaeyjum eða á köldu svæði á Íslandi hefði ég skilið stoltið. En að moka rusli í gáma og flytja það út með skipum sem brenna svartolíu og segjast vera að vinna einhverjar umhverfisbætur — það er náttúrlega fullkomin hræsni.

Orð eru til alls fyrst. Auðvitað förum við ekki út í svona ævintýri eins og hér er lagt til. Reyndar er þetta, ef ég man rétt, fyrsta tillagan í langan tíma sem kemur fram á Alþingi sem tekur á einhverju konkret vandamáli og segir: Það er hugsanlega til lausn, eigum við að kanna hana? í staðinn fyrir að velta sér upp úr sýndarmennskunni eins og hér er títt gert í þessum málum.

Ég undrast það að fleiri skuli ekki taka þátt í þessari umræðu, sérstaklega þeir sem gefa sig út fyrir það að bera umhverfismál fyrir brjósti. Ég fagna því að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson er staddur hér í salnum en ég sakna þess að hér séu ekki fleiri. Sjálfur er ég mjög stoltur af því að vera meðflutningsmaður að þessu máli og ég held að við ættum að gera meira af því að koma fram með tillögur sem snúa að sértækum vandamálum í umhverfismálum. Við ættum t.d. að láta gera nýja úttekt á því hvernig frárennsli er háttað, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, og gera þar stórátak. Við ættum að láta kanna þetta alveg í þaula og koma svo fram með tillögur til úrbóta. Það væri bragur á því. Þess vegna, eins og ég segi, vona ég að þessi tillaga um að hagkvæmni og möguleikar í þessu máli séu kannaðir nái fram að ganga, og ég efast ekki um að umræða mun skapast, t.d. í nefndinni, menn kalla þá sérfræðinga til. Ég efast ekki um að þar munu líka koma fram upplýsingar sem gagnast okkur við að taka á allri keðjunni, frá sorpsöfnun og flokkun heima hjá okkur og þar til við vonandi komum því sorpi af okkur, ekki ofan í jörðina til þess að menga þar grunnvatn til lengri tíma. Ég held að menn ættu að varast vítin sem þegar hafa komið fram. Það er þegar búið að grafa upp gamla öskuhauga þar sem menn hafa t.d. verið að skipuleggja ný byggingarhverfi, bæði hér og á Suðurnesjum og víðar. Ég hélt satt að segja að þessi víti væru nóg til að menn hugsuðu sig tvisvar um áður en þeir færu að blessa urðun og auka hana í stórum stíl. Þannig að ég vona að þessi tillaga fái góða umfjöllun í nefnd og hraða meðferð í gegnum þingið.