150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[15:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar og ég virði að sjálfsögðu við hann að hann þurfi að vera annars staðar á fundi og geti ekki tekið meiri þátt í þessari umræðu, enda var ég ekki að beina orðum mínum sérstaklega að honum þegar ég sagði að það vantaði í salinn fullt af fólki sem kenndi sig við umhverfisvernd. Hann er ekki einn, þessi ágætur þingmaður, en auðvitað er það gott að hann leiðrétti við mig að hann sé ekki hrifinn af því að flytja sorp til útlanda. Ég trúi því vel. En hitt er svo annað mál að það eru ýmis ljón í veginum við að endurnýta 90%, eins og hv. þingmaðurinn sagði. Ég man það úr mínum fyrri störfum að á sínum tíma spurði ég mjög að því hvort það væri hægt að endurvinna gler á Íslandi. Ég fékk neitun við því þar sem magnið væri ekki nógu mikið. Á sama hátt skilst mér að við getum ekki, merkilegt nokk, endurunnið ál, allar dósirnar sem falla til, og nota bene er söfnun á þessum umbúðum mjög góð hér á Íslandi. Það er mjög stórt hlutfall sem endursafnast en samt sem áður er ekki nógu mikið magn til þess að við getum endurunnið þetta, að mér skilst. Þannig að ég held að 90% endurvinnsla sé mjög fjarlægur draumur. Það þyrftu þá að liggja að baki mjög gaumgæfilegar rannsóknir á því hvort við ráðum við það. En auðvitað væri það æskilegt og afar farsælt ef það væri hægt.

Það er annað í þessu, aðrir málmar. Það hefur líka verið rætt hvort hér sé hægt að bræða upp aðra málma. Það var sama svar. Magnið er ekki nógu mikið. Við gjöldum þarna smæðar okkar. En það breytir ekki því að urðunin sem nú fer fram á Íslandi og er fyrirsjáanleg í nánustu framtíð er náttúrlega fyrir neðan allar hellur. Þess vegna er þessi tillaga svo góð.