150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef litlu við þetta að bæta nema hvað ég ætla bara að leiðrétta hv. þingmann. Ég var ekki að skamma nokkurn mann. Ég virði það við hv. þingmann að hann hefur greinilega ekki heyrt mig skamma fólk. Það var alveg fjarri því að ég væri að skamma nokkurn, ég lýsti bara undrun á því að þeir sem gefa sig út fyrir að vera meiri umhverfissinnar en aðrir væru ekki við umræðuna. Það getur vel verið að það sé ónærgætið af mér og dónaskapur. En auðvitað bíð ég spenntur eftir síðari umr. því þá fáum við væntanlega fleiri menn í hús. Ég el þá von í brjósti með hv. þingmanni að það verði svo. En fyrst og fremst var þetta bara undrun af minni hálfu vegna þess að þetta er, að mínu viti, tillaga sem kemur beint að ákveðnu vandamáli. Það eru ekkert rosalega margar tillögur sem við höfum séð í umhverfismálum á þinginu, að mér finnst, sem koma beint að ákveðnum vandamálum til að reyna að finna lausn á þeim Ég held að við gætum gert miklu betur, eins og ég benti á í ræðu minni áðan, og tekið fyrir fleiri málefni.

Það er fagnaðarefni sem fram kom í andsvari hér áður frá ágætum þingmanni sem er nú farinn úr salnum, að hann hafi sent minnisblað þar sem hann bað um úttekt á öllum þessum málum. Ég veit ekki hvort hann gerði það í eigin persónu eða fyrir hönd þingflokksins en það skiptir ekki máli. Ef afurðin kemur hingað inn í þingið og verður því að gagni er það náttúrlega mjög gott því að okkur veitir ekkert af því að gera alvöruúttektir á ýmsum vandamálum sem steðja að í umhverfismálum í staðinn fyrir að grípa eitthvað sem er til stundarvinsælda fallið og er þægilegt, eins og maður segir. Það er bara allt of mikið um að það hafi verið gert, eins og ég benti á í ræðu minni áðan.