150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[15:13]
Horfa

Flm. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í umræðu um þetta mál, þ.e. tillögu til þingsályktunar um að ráðherra verði falið að kanna hagkvæmni hátæknisorpbrennslustöðvar. Ég held að allir þingmenn sem tóku til máls hafi verið sammála um að við verðum svo sannarlega að taka til í okkar ranni í þessum málum. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson sagðist ekki vera á móti tillögunni sjálfri og hún gangi í raun út á það sama og hann hafi sjálfur lagt til, að þetta yrði kannað í stofnunum umhverfisráðuneytisins. Það er gott og blessað en ég vil benda á, í samhengi við þau ummæli, að þessi tillaga var líka lögð fram í fyrra, á síðasta þingi. Ef liðsinnis hv. þingmanns hefði notið við við tillöguna í fyrra værum við kannski komin lengra með þetta góða mál sem hann hafði í sjálfu sér ekki á móti. Hann hefði þá átt að leggja henni liðsinni sitt þegar hún var lögð fram á síðasta þingi.

Herra forseti. Vissulega er krafa um, og vonandi munum við verða við henni, að endurvinna sem allra mest af úrgangi og miklu meira en nú er. Það er unnt og fyrirsjáanlegt að hægt sé að gera meira af því með viðhorfsbreytingum og tækniframförum í endurvinnslu, með betri flokkun og ekki síst í vöruþróun svo að unnt sé að skipta út þeim vörum sem eyðast seint eða ekki úti í náttúrunni. Það er kannski sú von sem hæst ber í þessum málum, að við getum fundið efni sem koma í staðinn fyrir þessar vörur sem eyðast svona seint og menga svona mikið, t.d. margs kyns plastvörur, að við getum fundið eitthvað sem kemur í staðinn fyrir það og þá minnki úrgangur. Hvernig sem fer mun þessi úrgangur vonandi minnka í framtíðinni en jafnhliða mun hann líka aukast. Hann hefur verið að aukast mjög hratt hér á landi síðustu ár, bæði vegna þess a ð hver og einn hendir frá sér meira magni úrgangs og vegna aukins íbúafjölda og aukins ferðamannastraums. Við erum að berjast á báðum vígstöðvum. Magnið er eins mikið og komið hefur hér fram, 180.000 tonn, sem við erum að urða á ári og svo erum við að brenna tæplega 12.000 tonnum. Jafnvel þótt að við aukum endurvinnsluna er aukning líka hinum megin frá þannig að það verður alveg sama hvað við endurvinnum mikið og flokkum mikið, alltaf verður einhver afgangur sem við þurfum að losna við og við verðum að gera það á eins umhverfisvænan hátt og hægt er svo að sem minnst fari að lokum út í náttúruna, sem allra minnst, og mengunarminnsti úrgangurinn.

Ég ætla einnig að tala um fortíðina í minni annarri ræðu. Við höfum urðað úrgang síðustu áratugi um allar koppagrundir. Nú er ég að leggja fram fyrirspurn til ráðherra um hvar á landinu þennan úrgang sé nákvæmlega að finna. Hvar? Hvað er mikið magn á hverjum stað? Hvenær var þetta gert? Svo er það hættustig þessa úrgangs: Hvaða efni er þarna að finna? Er það eitthvað hættulegt? Þarf að gera ráðstafanir til að stemma stigu við að það mengi um aldur og ævi á þeim stöðum sem það er? Þetta er auðvitað alvarlegt mál og ég kem aftur að þessu: Við getum ekki verið þekkt fyrir að halda þessu áfram. Við getum ekki verið þekkt fyrir að urða áfram 200.000 tonn á ári. Hvað veiddum við mikinn þorsk í fyrra? Þetta er nálægt því að vera svipað magn, allur þorskafli Íslendinga. Við erum að urða jafn mikið sorp í jörðu. Mér heyrðist hv. þingmenn, sem hér töluðu í þessu máli, allir vera sammála um að þetta væri vandamál sem þyrfti að leysa. Auðvitað eru menn kannski ekki þess fullvissir að þetta verði hagkvæmt, og þá hversu hagkvæmt það verður og hversu dýrt það verður o.s.frv., og hvort betra sé að gera hlutina einhvern veginn öðruvísi. En við verðum að taka þennan slag. Við verðum að gera þessa könnun og leita leiða til að sjá um okkar sorp sjálf.

Varðandi urðunarskatt rétt í lokin, herra forseti, er áætlað að hann verði 15 kr. á kíló sem er þrefalt meira en í viðmiðunarlöndunum í Evrópu, þrefalt meira, þrefalt hærra gjald. Menn setja spurningarmerki við það. Á hverjum brennur, ef svo má segja? Hver á að borga þetta? Þetta lendir auðvitað á íbúum og fyrirtækjum. Hvert rennur þessi skattur? Það er kannski aðalmálið. Er þetta enn einn skatturinn í ríkissjóð? Ég hefði talið að ef menn ætla að leggja á umhverfisskatta verði markmiðið að liggja ljóst fyrir, hvort það hafi áhrif, umhverfisleg áhrif til að draga úr mengun o.s.frv. og líka hvert þessi skattur muni og eigi að renna. Ég tel einsýnt að slíkir umhverfisskattar eigi, ef menn vilja leggja þá á, að sjálfsögðu að renna í það að ráða bót á þeim vanda sem við horfumst í augu við, eins og t.d. sorpvandanum, einmitt það sem við ræðum hér, að koma þá upp svo og svo stórri sorpeyðingarstöð sem brennir sorp á eins umhverfisvænan hátt og hægt er.

Að því sögðu þakka ég fyrir þessa umræðu og legg til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og að fjallað verði um það þar á málefnalegan hátt.