150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

ráðherraábyrgð.

184. mál
[15:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er margt við þetta mál sem er algerlega nauðsynlegt en er á sama tíma þegar til staðar. Það er hins vegar gríðarlega nauðsynlegt að hafa það skýrara en það er. Þess eru dæmi um að farið sé undan í flæmingi þegar um sannleiksskyldu ráðherra er talað. Þess eru dæmi að ráðherrar skili seint og illa upplýsingum sem þingmenn þurfa nauðsynlega á að halda til að taka upplýstar ákvarðanir. Landsréttarmálið er dæmi um það. Skil á skýrslu um aflandseignir í skattaskjólum er annað dæmi. Þá er skýrsla varðandi húsnæðismarkaðinn einnig dæmi. Svo nokkur dæmi séu tekin.

Til viðbótar er líka farið að bera á því að svör við skriflegum fyrirspurnum berist seint og um síðir. Svartíminn er orðinn ansi langur og það er ekki nóg með að svartíminn sé langur: Loksins þegar maður fær svar er það jafnvel ekki svar við spurningunni sem var spurt heldur einhvers konar skíðafimi í búningi svars þannig að maður þarf að spyrja aftur og nákvæmar. Það er skautað fram hjá því að svara sumum stafliðum og öðrum er ekki svarað eins vel.

Þó að ég telji að í núverandi lögum um ráðherraábyrgð sé algerlega skýrt að ráðherra eigi að greina skýrt og skilmerkilega frá og skila upplýsingum tímanlega er algerlega nauðsynlegt, að fenginni reynslu, að þetta sé einfaldlega stafað ofan í ráðherra. Að það þurfi ekki að lesa sig að því að þetta standi þarna og þýði augljóslega að ráðherra þurfi að segja satt og skila upplýsingum á réttum tíma, heldur sé það einfaldlega stafað ofan í ráðherra.