150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

búvörulög og búnaðarlög.

163. mál
[15:57]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað get ég tekið undir að almennar reglur samkeppnislaga eigi að gilda alls staðar, líka t.d. hjá Ríkisútvarpinu, en ég veit að hv. þingmaður hefur engan áhuga á því. Bara sums staðar. Ég get hins vegar alveg sagt að þetta er ekki svo einfalt að segja bara að búvaran eigi að vera á opnum markaði og keppa við niðurgreiddar landbúnaðarvörur frá ESB. Hvaða tollmúra hefur ekki ESB gagnvart vanþróuðum löndum sem framleiða sömu vörur miklu ódýrar? Þeir setja auðvitað bara á tollmúra.

Ég er alveg tilbúinn að skoða þetta. Kerfið sem er núna þarf ekkert að vera alltaf við lýði. Eina krafan sem ég geri er að það sé á jafnréttisgrundvelli gagnvart öðrum framleiðendum. Að fella niður tolla. Hvað þýðir það? Það þýðir með öðrum orðum að íslenskur landbúnaður í þessu harðbýla landi er auðvitað ekki samkeppnisfær og verður það aldrei. Það kostar ákveðnar upphæðir að ætla að halda hér uppi matvælaframleiðslu en það er ekki þar með sagt að það þurfi alltaf að vera nákvæmlega það kerfi sem er núna. Ég legg mikla áherslu á og tel mikið hagsmunamál fyrir land og þjóð að hér séu bændur sem eru ekki bara að rækta matvæli, þeir halda þessu landi á lífi, þeir halda jörðunum við. Það er svo mikilvægt í öllum þessum óbyggðum sem landeigendur eiga land upp í. Það er risavaxið umhverfismál að hér sé búskapur. Það er að mörgu að hyggja en ég get alveg tekið undir að það þarf ekkert að vera akkúrat þetta kerfi. Eina krafan sem ég geri er að það sé réttlátt kerfi í samkeppni við aðra.