150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

búvörulög og búnaðarlög.

163. mál
[16:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki spurning um að rakka niður Ríkisútvarpið. Ég er bara að tala um að það fái ekki peninga frá skattgreiðendum í verkefni sem er á samkeppnismarkaði. Við hljótum að geta tekið undir það að RÚV eigi ekki að vera á samkeppnismarkaði. Það á að sinna einhverju hlutverki sem aðrir sinna ekki. En RÚV er nú ekki til umræðu hér.

Ég hefði kosið að hv. þingmaður myndi segja öðrum löndum, t.d. í Evrópusambandinu, að það sé miklu sniðugra að hætta með tollverndina og gera þetta bara með beinum styrkjum. En það gerir það enginn. Það eru allir með tollvernd, og enga smá tollvernd, og beingreiðslur og niðurgreiðslur og allt þetta. Ég myndi óska eftir því að hv. þingmaður færi til Brussel og héldi þessa ræðu þar og sæi hvað sagt yrði. En gott og vel, ég ætla ekki að gera neitt maus úr þessu. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni og er tilbúinn að skoða allar leiðir til að efla íslenskan landbúnað og gera hann markvissari. Það hefur margt verið gert seinustu misseri og ár. Ég er tilbúinn að halda því áfram. Bændur þurfa að hagræða. Þeir hafa fleiri möguleika meðfram venjulegum búrekstri, skógrækt o.s.frv. Ég held að við séum algjörlega á sama stað. Ég er ekkert að segja að þetta sé allt ómögulegt og tóm della, síður en svo. Ég vildi gjarnan fara í starfshóp með hv. þingmanni (Gripið fram í.) og reyna að finna góðar lausnir á því hvernig við getum raunverulega eflt landbúnað, gert þetta að markvissari atvinnugrein og samkeppnishæfari.