150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta frumvarp. Hann talar um 50 ný mál á ári. Hver er málafjöldinn? Annað sem mig langar líka að vita: Í frumvarpinu er talað um tálmun gagnvart foreldrum en tálmun gagnvart afa, ömmu og ættingjum er líka þekkt. Tálmun nær oft langt og yfirleitt er það samfara skilnaði og deilum foreldra. Þá hef ég oft furðað mig á rétti barnsins. Í slíkum tilfellum á barnið alltaf að hafa þann rétt að fá að umgangast báða foreldra og afa sinn, ömmu og ættingja. Mig langar að vita hvort til sé tölfræði um það í hve mörgum tilfellum tálmun kemur frá móður og í hve mörgum tilfellum frá föður. Eftir því sem ég fæ best séð er það yfirleitt móðirin sem tálmar gagnvart föður og föðurættin fær ekki þann umgengnisrétt sem hún ætti að hafa gagnvart barninu. Er einhver tölfræði til um þetta?