150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:33]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær tölur sem ég hef eru frá árunum 2007–2016. Á þeim tíma voru 550 kröfur um beitingu dagsekta til að þvinga fram umgengni, en 107 úrskurðir um að beita dagsektum kveðnir upp. Það má reikna með að þessi 400 mál hafi kannski endað með einhverri sátt. Við sjáum að það er greinilega mikill ágreiningur og af ýmsum ástæðum. Það er bara þannig að þegar tálmað er gagnvart öðru foreldri beinist það gegn öfunum og ömmunum og skyldmennunum þeim megin og það er kannski flóknara mál að eiga við. En þetta er mismikið mál fyrir börn. Ef tálmun byrjar þegar barnið er ungbarn hefur hún miklu minni áhrif, má ætla, en miklu meiri hafi tengslin verið mikil við báða foreldra og barnið er komið eitthvað á legg. Það eru alltaf einhver vandamál í kringum svona. Þess vegna miðast skilgreiningin við að það hafi komið úrskurður, dómur, dómsátt eða samningur milli aðila, sem er lykilatriði — þ.e. menn eru að brjóta niðurstöðu dómstóla eða stjórnvalda og halda einhverju fram um að það sé gott fyrir barnið án þess að nokkuð liggi fyrir um það. Svo er sagt: Barnið verður bara að njóta vafans og svo fer langt ferli í gang. Þetta er ekki viðunandi því að allir geta sagt þetta.