150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:42]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ábendingu. Hér á árum áður var það þannig að ef umgengnisforeldri skilaði ekki til forsjárforeldra — það var bara eitt forsjárforeldri, annað hvort foreldrið hafði forsjá yfir barninu — þá þýddi ekkert fyrir umgengnisforeldrið að skila ekki barninu og benda á eitthvert ofbeldi, barnið var bara sótt af lögreglu vegna þess að barnið á heima hér. Ekkert frekar en að ég myndi hitta barnið niðri í bæ og ætlaði ekki að skila því til foreldra vegna þess að þau væru ofbeldisseggir og ég ætlaði bara að hafa það. Það gerist ekki þannig. Mér finnst undarlegt ef það gerist þannig í dag. Ég er nú svolítið dottinn út úr þessum bransa og finnst undarlegt ef þetta er svona. Ég vona að stjórnvöld taki sig á.

Það er einhver niðurstaða í málum, það er dómur eða úrskurður um forsjá, um umgengni o.s.frv. Við verðum að fylgja því. Það þýðir ekki að segja bara eitthvað. Engin kæra og engin lögreglurannsókn og ekkert, menn segja bara eitthvað. Það er frumskógarlögmál. Þess vegna er þetta frumvarp komið fram. Það þarf að hafa eitthvert skikk á þessum málum svo að fólk fari eftir niðurstöðu dómstóla, fari eftir niðurstöðu stjórnvalda. Við getum ekki leyft okkur að hunsa hana og segja: Reyndu að sækja barnið til mín. Þið munið skaða barnið ef þið reynið að sækja það og ég vil ekki skila því. Nei, foreldrar sem tálma verða að bera ábyrgð. Um leið og við látum löggjöfina sýna að þeir eigi að bera ábyrgð mun þessum málum fækka mjög mikið. Ég spái um 99%. Eða 91%. Vegna þess að venjulegt fólk ætlar ekki að láta beita sig refsingu.