150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður varð var við umfjöllun í fjölmiðlum nýlega. Þar var faðir sem hefur ekki fengið að hitta barnið sitt í tvö eða þrjú ár og hefur nú fengið endanlegt svar frá Barnavernd sem segir: Við höfum ekkert upp á þig að klaga, kæri faðir, en við treystum okkur ekki til þess að reyna að aðstoða þig frekar. Hann er með úrskurð um að hann eigi rétt á að hitta barnið og barnið á rétt á því að hitta hann og hann hefur ekkert brotið af sér. En Barnavernd gefur þetta frá sér og segir: Það er svo mikil stífni hér að við treystum okkur ekki til að vera í þessu máli. Sýslumaður er búinn að vera með þetta mál hjá sér í tvö eða þrjú ár og þar gerist ekkert, ekki neitt. En ég hef líka verið með mál þar sem umgengnisforeldri hefur lokað barn inni heima hjá sér og ekki leyft því að fara í skóla í margar vikur (BN: Og ekkert gerist?)og barnið hefur ekki fengið að hitta lögheimilisforeldrið, ekki fengið að sinna tómstundum, af ótta við að lögheimilisforeldrið sæki barnið. Og hvað gerir Barnavernd? Ekki neitt. Ég þurfti að fara í innsetningarmál, þurfti að fara fyrir dóm til að fá staðfestan dóm um að það mætti fara og sækja barnið.

Þannig að ég segi við hv. þingmann: Ég skil hugsun hans um að það þurfi að koma skikk á þetta. En ég held að við ættum samt sem áður að reyna frekar að skýra það fyrir stjórnvöldum að það að aðhafast ekki er brot gegn barninu. Stjórnvöld eru ábyrg fyrir því að bregðast ekki við svona krísuástandi. Þar á að setja stólinn fyrir dyrnar gagnvart báðum foreldrum og segja: Ef þið getið ekki komist að samkomulagi munum við einfaldlega grípa í taumana.