150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eins og talað algerlega út úr mínum munni. Ég hef bara verulegar áhyggjur af því, hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, að við skulum vera svona mikið sammála. (Gripið fram í: Við verðum að hætta að hittast svona.) Við erum að verða heitasta parið, eins og sagt er. Það er auðvitað algerlega óþolandi að stjórnvöld framfylgi ekki úrskurðum eða dómum. En það hefur stundum komið fram að menn ákveða að meta það og segja: Við ætlum að leyfa foreldri sem beitir tálmuninni að halda því áfram vegna þess að inngrip með einhverjum látum gæti skaðað barnið. Við megum samt ekki hugsa svona. Það á enginn að komast upp með ofbeldi af þessu tagi því að allir hika þar sem annað gæti hugsanlega haft slæmar afleiðingar. Við verðum að gefa skýr skilaboð. Ég held að bara það að menn skynji að verið er að níðast á börnunum með ákveðnum hætti ef löggjafinn segir: Við ætlum ekki að sætta okkur við það.

Síðan er það svolítið sérmál að við þurfum að tryggja að stjórnvöld framfylgi úrskurðum. Þess vegna vildi ég alltaf að dómsmálaráðuneytið, ekki einhver þingmaður, væri með svona mál og það yrði tekið í stærra samhengi, alvöruendurskoðun á barnaverndarkerfinu öllu saman, til að tryggja að stjórnsýslan sé örugg og góð og réttur barnsins tryggður. Ég hefði viljað það. Það er vont að vera með svona frumvarp eitt og sér, ég skil það. En ég átti enga aðra úrkosti, það er ekkert að gerast. Það er það sorglega við þetta. En við verðum að horfa (Forseti hringir.) á málið út frá því að þetta eru auðvitað eða geta verið mjög alvarleg brot.