150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan byrja á að þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir að koma með þetta frumvarp fram aftur. Það var flutt í vor, ekki rétt? (BN: Og bætt aðeins.) Og bætt aðeins og ég skil nákvæmlega hvað hv. þingmaður segir. Ég ætla nú samt að mótmæla því að það séu aðallega femínistar eða einhverjar kvenrembur sem stígi hér á stokk til að vera neikvæðar. En ég held, eins og hv. þingmenn hafa talað hér á undan mér, að um sé að ræða mikinn kerfisvanda. Stærsta málið er kerfisvandi. Það er með ólíkindum. Við horfum upp á hvernig stjórnvöld draga lappirnar. Við sjáum feður, sem hafa jafnvel verið dæmdir fyrir að misnota fjögurra, fimm ára gömul stúlkubörn, halda áfram að misnota næstu tvær dætur líka og ekki er gripið inn í. Þetta er vitað. Við erum að horfa upp á slíkt. Ég held að þær konur sem stíga fram og eru alfarið og algerlega á móti tálmun sem slíkri sé vegna þess að það er ofbeldi gegn börnum — og ég er algerlega sammála því, það er ofbeldi gegn börnum að ætla að meina þeim að hitta hitt foreldrið sitt. Ég held að undirliggjandi í þessari vörn sem við förum í sé umhyggja fyrir börnunum af því að mörg þeirra eiga svo erfitt uppdráttar og þau hafa ekki nógu öfluga talsmenn til að verja sig þegar þau eru beitt alveg ótrúlegu ofbeldi stundum. Óneitanlega virðist þessi hringavitleysa snúa þannig upp á sig að þeim börnum blæðir sem síst skyldi fyrir þetta og eru misnotuð, af foreldri í þessu tilviki, til að ná sér niðri á fyrrverandi maka eða hinu foreldrinu. Við þyrftum að byggja miklu stærri og sterkari grunn og láta ekki einungis foreldrana axla ábyrgð á tálmun heldur líka stjórnvöld, stjórnsýsluna, þá sem eiga virkilega að taka utan um börnin og hjálpa þeim