150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

barnaverndarlög.

123. mál
[16:51]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að velta fyrir mér eða fara í einhverjar vangaveltur um hvernig fólk er o.s.frv. Þetta frumvarp er fyrst og fremst hugsað til þess að sýna það að löggjafinn líti á tálmun sem brot gegn barni. Það vantar með skýrum hætti í löggjöfina. Það er ýmislegt annað sem kemur fram í barnaverndarlögum um vanrækslu og ofbeldi og ég hefði í sjálfu sér talið að þetta ætti að heyra þar undir, en vegna þess að menn hafa greinilega ekki litið þannig á þá þarf pósitíft ákvæði um þetta.

Ég tek alveg undir það og mér finnst mjög líklegt að stjórnsýslan kringum þetta og stjórnvöld ráði kannski illa við þennan vanda. Ég er nokkuð viss um það. En ég trúi því að þegar svona frumvarp verður að lögum muni draga verulega úr þessu. Vandinn verði minni, minni orka, tími og fé sem fari í þetta hjá barnaverndaryfirvöldum og þeim fagaðilum sem í kringum þetta eru. Slíkum málum muni bara fækka heilmikið. Þá gætu menn sinnt þeim málum vel og betur sem eftir verða. Það er von mín af því að ég tel að skilaboðin séu svo mikilvæg eins og menn hafa sýnt í öðrum löndum. Ef litið er til Þýskalands og einhver tálmun er þar, þá er fólki bara stillt upp við vegg og dómari segir: Ef tálmun verður áfram missir viðkomandi forsjá. Ef það gengur ekki og tálmun verður hjá umgengnisforeldri þá sætir það bara refsiábyrgð. Ég held að skynsamlegt sé að setja þetta í lög til að tryggja að fólk noti þetta ekki sem tæki í öðrum deilum eða reiði og hatri sem á milli fólks er.